Enski boltinn

Fjölskylda Brendan Rodgers faldi sig á meðan þjófar fóru um húsið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers var upptekinn með Leicester liðinu í Englandi.
Brendan Rodgers var upptekinn með Leicester liðinu í Englandi. Getty/ Leila Coker
Brendan Rodgers, nýr stjóri Leicester City og fyrrum stjóri Liverpool og Celtic, lenti í því að þjófar brutust inn í hús hans í Glasgow. Það sem meira er að fjölskylda hans var heima.

Eiginkona Brendan Rodgers og stjúpdóttir hans hlupu inn á baðherbergi og földu sig fyrir þjófunum en Sky Sports segir frá.

Brendan Rodgers var upptekinn með Leicester liðinu í Englandi og þær mæðgur voru því einar heima. Charlotte, kona Brendan Rodgers, var í húsinu ásamt sex ára gamalli dóttur sinni Lola en hús þeirra er í úthverfi Glasgow.





Klukkan eitt um nóttina vöknuðu þær mæðgur við raddir á neðri hæðinni en tveir þjófar fóru þá um húsið og stálu öllu sem þeir sáu verðmæti í.  Þjófarnir komu síðan inn í svefnherbergið og beindu vasaljósi á Charlotte og Lolu sem öskruðu upp en tókst síðan að komast inn á baðherbergi og læsa að sér.

Þjófarnir flúðu í framhaldinu með nokkra kassa með dóti sem var að koma frá skrifstofu hans hjá Celtic. Í kössunum voru meðal annars öll verðlaunin sem Brendan Rodgers vann á tveimur og hálfu ári með Celtic.





Charlotte og Lola voru í mikli áfalli eftir þessa óskemmtilegu upplifun en báðar samt ómeiddar.  Skoska lögreglan rannsakar nú málið.

Undir stjórn Rodgers vann Celtic liðið sjö titla í röð og vann þrefalt bæði 2017 og 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×