Erlent

Ríkisstjórn Finnlands segir af sér eftir skipbrot heilbrigðisumbóta

Kjartan Kjartansson skrifar
Gamanið er búið hjá ríkisstjórn Juha Sipilä í bili.
Gamanið er búið hjá ríkisstjórn Juha Sipilä í bili. Vísir/EPA
Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, ætlar að færa forseta landsins afsagnarbréf eftir að miðhægri ríkisstjórn hans féll frá meiriháttar umbótum á heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustu í dag. Umbæturnar voru stærsta málið á dagskrá ríkisstjórnarinnar áður en kosið verður til þings í næsta mánuði.

Finnska ríkisútvarpið YLE segir að ríkisstjórnin hafi boðað til blaðamannafundar við forsetahöllina klukkan 8:45 á íslenskum tíma. Sipilä ætlaði að afhenda forsetanum afsagnarbréf ríkisstjórnar sinnar klukkan 8:00. Financial Times segir að Sauli Niinistö forseti hafi fallist á afsögnina og beðið Sipilä um að stýra ríkisstjórninni fram að kosningnum 14. apríl.

Þrír flokkar hafa unnið saman í ríkisstjórn Finnlands frá því í maí árið 2015. Auk Miðflokks Sipilä sitja Þjóðarbandalagið og Blái umbótaflokkurinn í ríkisstjórninni. Síðastnefndi flokkurinn varð til þegar nítján þingmenn sögðu skilið við hægriflokkinn Sanna Finna árið 2017 í kjölfar innanflokksátaka.

Skoðanakannanir benda til þess að Sósíaldemókratar bæti við sig mestu fylgi í kosningunum í næsta mánuði og fengi um fimmtung atkvæða. Miðflokkur Sipilä fengi fjórtán prósent ef kosið yrði nú.

Lengi hefur staðið til að hrista upp í heilbrigðiskerfi Finnlands enda eru Finnar á meðal þeirra þjóða sem eldast hvað hraðast. Erfitt hefur þó reynst að koma slíkum breytingum í gegnum finnska þingið. Tilraunin nú er sögð hafa strandað á því að ríkisstjórn Sipilä bætti við umbótum á lögum um sveitarstjórnir sem reyndust umdeildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×