Enski boltinn

Van Dijk stækkaði um átján sentímetra eitt sumarið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk með Sadio Mane en það er mikill stærðarmunur á þeim.
Virgil van Dijk með Sadio Mane en það er mikill stærðarmunur á þeim. Getty/Andrew Powell
Virgil van Dijk er kominn í hóp allra bestu varnarmanna heims og var heldur betur happakaup fyrir Liverpool fyrir í janúar í fyrra. Blaðamaður BBC settist niður með hollenska miðverðinum og fræddist meira um sögu hans og framtíðarsýn.

Virgil van Dijk fer ekkert í felur með það að hann hefur sett stefnuna á það að verða Liverpool-goðsögn. Hann hefur spilað frábærlega á þessu tímabili og lítur út fyrir að vera eitt stærsta púslið sem vantaði í mögulegt meistaralið Liverpool.

Van Dijk hefur á fimm árum farið frá því að spila með hollenska liðinu Groningen í það að spila með Liverpool en á leiðinni spilaði hann með Celtic í Skotlandi og Southampton í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool var tilbúð að borga fyrir hann 75 milljónir punda í lok desember 2017 og sér ekki eftir þeim pening í dag.

Í viðtalinu talar Van Dijk meðal annars um upphafsárin sín í fótboltanum og þar kemur ýmislegt fróðlegt fram. Guillem Balague hjá BBC fékk hollenska miðvörðinn til að segja frá fyrstu sporunum.

Van Dijk er núna 193 sentímetrar á hæð og algjör klettur í vörn Liverpool en hann var ekki alltaf með sentímetrana með sér.

„Ég var ekki hávaxinn fyrr en ég fékk vaxtarkipp. Þegar ég var sextán ára þá var yngri bróðir minn að verða hærri en ég. Ég stækkaði hins vegar um átján sentímetra sumarið sem ég varð átján ára,“ segir Virgil van Dijk.

Þessi mikli vaxtarkippur kom aftur á móti með vandamál með sér.

„Hnéð mitt var óstöðugt og ég var með náravandamál. Það voru svo mikið af vandamálum hjá mér með skrokkinn eftir þetta. Þá fór ég í alvöru endurhæfingu með sjúkraþjálfara í sex vikur. Eftir það fór ég að spila vel,“ sagði Van Dijk

„Þegar ég var sextán ára þá var ég hægur hægri bakvörður og þótti ekki nógu góður til að spila miðvörð. Ég var aldrei framúrskarandi leikmaður fyrr en ég fór að spila með nítján ára liðinu og fékk fyrirliðabandið. Þá gekk allt miklu betur. Ég spilaði nokkra leiki með 23 ára liðinu og þó fóru hlutirnir að gerast fljótt,“ sagði Van Dijk.

Van Dijk segir líka frá tíma sínum hjá FC Groningen þar sem hann fékk sinn fyrsta atvinnumannasamning. „Ég þurfti að hjóla á æfingar og fyrstu launin mín fóru í ökutíma. Áður en ég skrifaði undir samninginn þá var ég vinna í uppvaskinu á veitingastað í Breda,“ segir Van Dijk.

Van Dijk segir líka frá erfiðum veikindum sínum þar sem hann þurfti að vera í þrettán daga á spítala. Það má finna allt viðtalið við hann hér.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.