Erlent

ISIS-liðar sýna mátt sinn í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Sýrlenskir Kúrdar fylgjast með loftárás gegn ISIS í Sýrlandi.
Sýrlenskir Kúrdar fylgjast með loftárás gegn ISIS í Sýrlandi. AP/Felipe Dana
Talið er að hundruð vígamanna Íslamska ríkisins hafi tekist að flýja undan lokasókn sýrlenskra Kúrda og bandamanna þeirra gegn hryðjuverkasamtökunum í Sýrlandi. Líklegast þykir að minnst þúsund vígamenn hafi flúið og farið til Írak. Þar ógni þeir viðkvæmu öryggi landsins og íbúum þess.

Þetta hefur AP fréttaveitan eftir heimildarmönnum sínum innan bandaríska og írakska hersins. Þeir segja ljóst að umsvif ISIS séu að aukast í Írak.



ISIS-liðar frá Sýrlandi og Írak hafa snúið sér aftur að hefðbundnum skæruhernaði, hryðjuverkum, launmorðum og fjárkúgun í þeim löndum en þó sérstaklega í fjórum héruðum Írak. Þar hafa vígamenn kúgað mikið fé af íbúum, eins og þeir gerðu víða á árum áður.

Þrátt fyrir að um tuttugu þúsund hermenn vakti landamærin Íraksmegin hafa vígamenn komist fram hjá varðstöðvunum með því að fara í gegnum eyðimörk norður af átakasvæðinu í Sýrlandi og með því að dulbúast og lauma sér yfir landamærin að nóttu til.

Hershöfðinginn Yahya Rasoul, talsmaður írakska hersins, segir yfirvöld þar í landi telja að á milli fimm og sjö þúsund vígamenn Íslamska ríkisins séu virkir í Írak.

„Íslamska ríkið er að reyna að sýna mátt sinn í Írak vegna pressunnar gagnvart þeim í Sýrlandi,“ segir Rasoul við AP. Hann segir vígamennina hafa falið fé og vopn víða um svæðið, þegar þeir höfðu stjórn á því og hafi nú greiðan aðgang að þeim birgðum.

Rasoul sagði Íraka eiga erfitt með að kveða niður ISIS-liða vegna erfiðleika við upplýsingaöflun og framkvæmd loftárása. Svæðið sé það erfitt yfirferða og strjálbýlt að bestu herjir heimsins ættu erfitt með að stjórna því að fullu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×