Erlent

Flugræningi skotinn til bana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fjöldi sérsveitarmanna tók á móti flugvélinni þegar hún nauðlenti í bangladessku borginni Chittagong.
Fjöldi sérsveitarmanna tók á móti flugvélinni þegar hún nauðlenti í bangladessku borginni Chittagong. EPA/EFE
Farþegi um borð í flugvél bangladesska flugfélagsins Biman Bangladesh Airlines, sem grunaður er um að hafa reynt að ræna vélinni, var skotinn til bana, að því er fram kemur í fjölmiðlum í Bangladess. BBC greinir frá.

Maðurinn er sagður hafa tjáð farþegum og áhöfn flugvélarinnar, sem var á leið frá Bangladess til Dubai, að hann hefði skammbyssu í fórum sínum.

Sérsveitarmenn felldu manninn þegar þeir voru sendir inn í vélina eftir að henni var nauðlent í bangladessku borginni Chittagong. Farþegar og áhöfn, samtals 148 manns, komust heilu og höldnu frá borði.  

Að sögn heryfirvalda í Bangladess var maðurinn 25 ára. Hann særðist þegar viðbragðsaðilar réðust til atlögu í flugvélinni og lést skömmu síðar. Þá hefur verið greint frá því að maðurinn gæti hafa glímt við andleg veikindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×