Erlent

Indverjar taldir hafa gert loftárás í Pakistan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mynd sem talin er sýna ummerki eftir loftárásina.
Mynd sem talin er sýna ummerki eftir loftárásina. Twitter
Indverski flugherinn gerði í nótt loftárásir á bækistöðvar vígamanna. Þeir eru taldir bera ábyrgð á árás sem varð 46 indverskum hermönnum að bana um miðjan febrúar.

Utanríkisráðherra Indlands segir að loftárásirnar hafi verið framkvæmdar en hins vegar er óljóst hvar sprengjurnar höfnuðu, það er að segja hvort þær hafi verið gerðar í Pakistan, eða í þeim hluta Kasmír sem Indverjar stjórna.

Þó er ljóst að árásirnar hafa verið nærri landamærunum að Pakistan því flugherinn þar í landi sendi herþotur sínar á loft til móts við þær indversku án þess þó að til átaka hafi komið. Pakistanski flugherinn staðfesti að sama skapi að indverskar þotur hafi flogið inn í lofthelgi Pakistan en að þær hafi ekki valdið nokkru tjóni.

Spennan á milli ríkjanna tveggja, sem bæði eiga kjarnavopn, hefur því ekki verið meiri í áraraðir. Síðast kom til vopnaðra átaka milli ríkjanna árið 1971. Indverjar kenna Pakistönum um árásir vígamannanna í Kasmír en Pakistanar segja þá alls óviðkomandi stjórnvöldum þar í landi.


Tengdar fréttir

Þjóðarsportið í hættu vegna Kasmírdeilu

Indverjar vilja ekki spila við Pakistana á HM í krikket. Vilja raunar ekki sjá þá taka þátt vegna meints skeytingarleysis Pakistana í garð hryðjuverkastarfsemi. Indverjar ætla einnig að skera á rennsli vatns til Pakistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×