Enski boltinn

Cardiff þarf að borga fyrstu greiðsluna fyrir Sala í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Minning um Emiliano Sala.
Minning um Emiliano Sala. Getty/Christopher Lee
Emiliano Sala er dýrasti leikmaðurinn í sögu Cardiff City en Argentínumaðurinn náði aldrei að spila fyrir velska félagið. Cardiff þarf samt sem áður að borga fyrir leikmanninn og nú er komið að skuldadegi.

Cardiff átti að borga fyrstu greiðsluna 20. febrúar en fékk vikufrest eða til dagsins í dag. Nantes hefur þegar farið í hart í því að endurheimta greiðsluna og sendi Cardiff meðal annars rukkun 5. febrúar síðastliðinn.

Cardiff svaraði með því að félagið ætlaði að bíða eftir að rannsókn flugslyssins lyki og öll mál tengd tryggingum og öðru væri komin á hreint. Cardiff hefur jafnframt gefið það út að félagið ætli sér ekki að hlaupa undan skuldbindingum sínum sé það ljóst að þeim beri að greiða alla upphæðina til Nantes.





Cardiff hafði á sínum tíma samþykkt að borga franska liðinu Nantes fimmtán milljónir punda fyrir argentínska framherjann. Nantes fær þó ekki nema helminginn því Bordeaux, gamla félag Emiliano Sala, fær 50 prósent af söluverðinu.

Emiliano Sala fór til Cardiff, stóðst læknisskoðun og var í kjölfarið kynntur sem nýr leikmaður. Hann flaug síðan til Nantes til að ganga frá sínum málum. Þremur dögum síðan tóku örlögin í taumana.

Að kvöldi 21. janúar átti Emiliano Sala að fljúga til baka til Wales í tveggja manna flugvél en hún fórst í Ermarsundinu. Sala var 28 ára gamall og með honum fórst einnig flugmaðurinn David Ibbotson.

Lík Sala fannst ásamt hluta flugvélarinnar en David Ibbotson hefur enn ekki fundist. Sala var jarðaður í Argentínu um síðustu helgi.

Fari svo að Cardiff City gangi ekki frá þessari fyrstu greiðslu í dag þá gæti málið verið á leiðinni inn á borð hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×