Enski boltinn

Báðust báðir afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maurizio Sarri gat ekki leynt vonbrigðum sínum á hliðarlínunni.
Maurizio Sarri gat ekki leynt vonbrigðum sínum á hliðarlínunni. Getty/Laurence Griffiths
Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea og fyrirliðinn Cesar Azpilicueta báðu stuðningsmenn félagsins afsökunar eftir 6-0 skellinn á móti Manchester City í gær.

„Við höfum spilað mjög illa í síðustu þremur leikjum þannig að við verðum að biðja alla afsökunar,“ sagði Maurizio Sarri eftir leikinn.

Tapið þýddi að Chelsea liðið datt niður í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Þetta er eitt af verstu kvöldum lífs míns,“ sagði fyrirliðinn Cesar Azpilicueta og bætti við: „Það er erfitt að útskýra hvað gerðist hjá okkur,“ sagði Cesar.





„Við erum að fá á okkur mikið af mörkum og það getum við aldrei sætt okkur við. Það eina sem ég get gert er að biðja stuðningsmenn okkar afsökunar því þetta er ekki ásættanlegt,“ sagði Azpilicueta.

Maurizio Sarri var spurður hvort hann óttaðist um framtíð sína sem knattspyrnustjóri Chelsea en félagið hefur verið þekkt fyrir að láta stjóra sína fjúka á síðustu árum.

„Ég veit það ekki. Þú ert að spyrja mig út hlut sem er ekki hluti af mínu starfi. Ég hef áhyggjur af okkar frammistöðu en þú verður að spyrja félagið að hinu,“ sagði Sarri.

„Ég vil skoða þetta og skilja þetta. Ég geri mitt besta og það gera leikmennirnir líka. Eins og er þá get ég bara beðist afsökunar á þessu,“ sagði Sarri.





Chelsea tapaði í leiknum um Samfélagsskjöldinn en lék svo átján leiki í röð án þess að tapa. Síðan þá hefur liðið tapað 7 af 21 leik í öllum keppnum.

„Ég er mjög hissa á þessu því í byrjun tímabilsins þá spiluðum við betur á útivelli en á heimavelli. Ég veit ekki hvað er í gangi núna en við erum í vandræðum,“ sagði Sarri.

„Í síðustu þremur eða fjórum leikjum þá hafa ekki komið nein viðbrögð við fyrsta mótlæti. Það er erfitt að lýsa okkar frammistöðu og líka erfitt að átta sig á henni. Við byrjuðum vel en fengum svo á okkur mark á heimskulegan hátt,“ sagði Sarri.

„Við þurftum þá bara að halda okkur inn í leiknum en viðbrögðin voru ekki góð. Við gerðum fullt af mistökum á fyrstu tuttugu mínútunum eftir fyrsta markið og vorum aldrei að fara komast upp með það á móti þessu liði sem spilaði frábæran fótbolta,“ sagði Sarri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×