Enski boltinn

Vill að lið missi stig ef stuðningsmennirnir eru með kynþáttaníð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Michail Antonio
Michail Antonio vísir/getty

Michail Antonio, leikmaður West Ham í ensku úrvalsdeildinni, vill sjá harðari refsingar fyrir kynþáttaníð stuðningsmanna. Hann lagði meðal annars til að stig yrðu tekin af liðum.

Í vetur hafa komið upp mörg mál þar sem leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hafa orðið fyrir kynþáttaníði, nú siðast var það Mohamed Salah sem á að hafa orðið fyrir kynþáttaníði í leik Liverpool og West Ham.

„Það að finna stuðningsmanninn sem gerði þetta lagar ekkert,“ sagði Antonio.

„Sá hinn sami fær kannski lífstíðarbann, en það er ekki eins og menn séu með mynd af andlitinu á honum. Hann kemst aftur inn á völlinn.“

„Ef liðinu verður refsað þá leysa stuðningsmennirnir úr þessu sjálfir sín á milli því stuðningsmennirnir elska liðið sitt.“

Það er þekkt að UEFA refsi liðum fyrir hegðun stuðningsmanna með því að láta leiki fara fram fyrir luktum dyrum og vill Antonio taka það upp í úrvalsdeildinni.

„Mér finnst þetta hafa versnað en ég vil ekki kenna deildarsamtökunum um það heldur enska knattspyrnusambandinu og UEFA. Þau taka ekki nógu strangt á málunum.“

„Það er hægt að útrýma kynþáttaníði af völlunum en það fer eftir því hvað enska sambandið og UEFA vilja gera í málinu.“

„Ef þeir vilja taka á málunum þá væri hægt að útrýma þessu á fimm til tíu árum. Ef þeir halda áfram að reyna að finna aðrar lausnir í staðinn fyrir að ráðast beint á vandamálið þá gæti það tekið kynslóðir.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.