Son skaut Tottenham í annað sætið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Son skoraði mikilvægt mark í dag
Son skoraði mikilvægt mark í dag vísir/getty
Son Heung-Min skaut Tottenham upp fyrir Manchester City í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með sigurmarki undir lok leiks Tottenham og Newcastle á Wembley.

Leikurinn byrjaði einstaklega dauflega og þó Tottenham væri miklu meira með boltann gerðu þeir hvítklæddu ekkert af viti við hann. Erik Lamela komst næst því að setja boltann í netið þegar hann skallaði í samskeytin á 24. mínútu. Stuttu seinna átti Newcastle góða skyndisókn og ógnuðu marki Tottenham í eina skiptið í fyrri hálfleik.

Það lifnaði aðeins yfir sóknarleik Tottenham þegar leið á hálfleikinn en markið kom þó ekki og markalaust var í hálfleik.

Í seinni hálfleik byrjaði Salomon Rondon á því að skalla í stöngina fyrir Newcastle. Gestirnir voru kannski lítið með boltann en þegar þeir fengu hann þá gátu þeir svo sannarlega ógnað Hugo Lloris.

Á 65. mínútu leiksins bjargaði Fabian Schär á línu fyrir Newcastle, skot Christian Eriksen var nokkrum sekúndubrotum frá því að komast yfir línuna.

Leikmenn Tottenham héldu áfram að leita að marki og þeir uppskáru á 83. mínútu þegar Son Heung-Min skoraði á 83. mínútu. Martin Dubravka, sem hafði átt afbragðsleik, gerði mistök í marki Newcastle. Hvort hann sá boltann seint eða hvað er erfitt að segja til um, en skot Son fór næstum því í gegnum markvörðinn, fór undir hann og í jörðina og þaðan í netið. 

Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og Tottenham er komið með einu stigi meira en Englandsmeistarar Manchester City og fer því í annað sætið. Newcastle situr eftir í 14. sæti með 24 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira