Tilfinningaþrunginn sigur Cardiff í fyrsta heimaleiknum eftir flugslys Sala

Anton Ingi Leifsson skrifar
Cardiff menn fagna í kvöld.
Cardiff menn fagna í kvöld. vísir/getty
Cardiff vann sinn fyrsta sigur í ensku úrvalsdeildinni í rúman mánuð er liðið vann 2-0 sigur á Bournemouth á heimavelli í dag.

Bournemouth skellti Chelsea 4-0 í vikunni á meðan Cardiff tapaði naumlega fyrir Arsenal á útivelli eftir að hafa verið betri aðilinn lungað úr leiknum.

Cardiff fékk vítaspyrnu á fimmtu mínútu eftir að Steve Cook handlék knöttinn á óskiljanlegan hátt innan vítaetigs Bournemouth. Á punktinn fór afmælisbarnið Bobby Reid og skoraði af öryggi.

Staðan var 1-0 í hálfleik en síðari hálfleikur var átján sekúndna gamall er Bobby Reid skoraði aftur. Rangstöðugildra Bournemouth klikkaði og Reid lék á Artur Boruc og kom boltanum í netið. Lokatölur 2-0.









Þetta var fyrsti heimaleikur Cardiff eftir að flugvél með Emiliano Sala er talinn hafa farist yfir Ermsundi en þetta var tilfinningaþrungin stund í Wales í kvöld.

Reid fagnaði fyrra marki Cardiff með því að taka upp bol af Sala og lyfta honum upp. Stuðningsmenn Cardiff sungu látlaust um Sala.

Einnig var þetta gífurlega mikilvægur sigur Cardiff í fallbaráttunni. Cardiff er enn í fallsæti, átjánda sætinu, tveimur stigum frá öruggu sæti en Bournemouth er í tíunda sæti deildarinnar. Þetta er sjöundi útileikurinn sem Bournemouth tapar í röð.







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira