Aguero afgreiddi Arsenal og forskot Liverpool tvö stig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sergio Aguero fagnar í kvöld.
Sergio Aguero fagnar í kvöld. vísir/getty
Manchester City minnkaði forskot Liverpool niður í tvö stig er liðið vann 3-1 sigur á Arsenal í stórleik helgarinnar á Etihad í dag.

Það var ekki liðin ein mínúta af leiknum er City komst yfir. Alex Iwobi tapaði boltann á slæmum stað, Aymeric Laporte sendi boltann beint á kollinn á Aguero sem stangaði boltann í netið.

Átta mínútum síðar kom Laporte boltanum í netið en var réttilega dæmdur rangstæður. Áfram hélt fjörið því á elleftu mínútu jafnaði Laurent Koscielny metin eftir hornspyrnu. Boltanum var flikkað til hans og Frakkinn kom boltanum yfir línuna af stuttu færi.

Arsenal var ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og City átti í nokkrum vandræðum með að stjórna leiknum en það voru hins vegar þeir sem skoruðu þriðja mark leiksins. Aftur var það Aguero en eftir magnað spil City ýtti hann boltanum yfir línuna.

2-1 fyrir City í hálfleik en meistararnir tóku yfir leikinn í síðari hálfleik. Þeir réðu algjörlega ferðinni og sköpuðu hvert færið á eftir öðru. Bernd Leno hafði nóg að gera í markinu á meðan Ederson hefði varla þurft að taka hanskana með sér út í síðari hálfleikinn.

Aguero innsiglaði svo sigur City með þriðja marki sínu eftir klukkutíma leik. Sterling átti ekki í vandræðum með að komast framhjá tveimur varnarmönnum City, gaf boltann fyrir þar sem Bernd Leno sló boltann í Aguero og inn. Lokatölur 3-1.

City er áfram í öðru sætinu, nú tveimur stigum á eftir Liverpol, en Liverpool spilar annað kvöld gegn West Ham. Arsenal er í sjötta sætinu með 47 stig, stigi á eftir Manchester City og þremur stigum á eftir Chelsea sem er í fjórða sætinu.







 







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira