Enski boltinn

Bernardo Silva: Ég hélt að við værum búnir að tapa deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bernardo Silva.
Bernardo Silva. Getty/Simon Stacpoole
Bernardo Silva og félagar í Manchester City eru komnir aftur á toppinn í ensku úrvalsdeildinni og nýttu sér vel vandræði Liverpool-liðsins á síðustu vikum.

Bernardo Silva viðurkennir að hann hafi verið búinn að afskrifa möguleikann á því að verja titilinn þegar Liverpool var með fimm stiga forystu fyrir átta dögum.

City er komið á toppinn á markatölu eftir 2-0 sigur á Everton á miðvikudaginn en þetta er í fyrsta sinn í tvo mánuði sem liðið kemst í toppsætið.

„Við erum enn þá meistararnir og vitum hvað þarf til að vinna,“ sagði Bernardo Silva en á meðan margir leikmenn City-liðsins hafa orðið enskir meistarar er ekki sömu sögu að segja af leikmönnum Liverpool-liðsins sem virðast vera margir hverjir að fara á taugum.





„Fyrir nokkrum dögum þá hélt ég að við hefðum tapað ensku deildinni en núna erum við komnir aftur á toppinn þó það sé þannig af því að við höfum spilað leik meira,“ sagði Bernardo Silva.

„Það er gott að vera komnir á fulla ferð í kapphlaupinu um titilinn og við munum gera okkar allra besta til að vinna alla okkar leiki hér eftir. Við erum komnir á toppinn og það setur meiri pressu á ekki bara Liverpool heldur Tottenham líka,“ sagði Bernardo Silva.

Manchester City á enn möguleika á að vinna fernuna því liðið mætir Chelsea í úrslitaleik enska deildabikarsins, Newport í fimmtu umferð enska bikarsins og Schalke í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar áður en þessi mánuður er allur.





„Það er mitt mat að þetta skapi engin vandræði ekki síst þegar þú ert með leikmannahóp eins og við. Ef enginn meiðist þá ráðum við vel við þetta og það verða engin vandræði,“ sagði Silva.

 

„Það er hið besta mál að fá marga leiki því það þýðir að við erum að berjast um alla titla. Það er líka gott fyrir sálina og við munum reyna að ná fernunni,“ sagði Silva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×