Innlent

Fundur hafinn hjá ríkissáttasemjara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá fundi hjá sáttasemjara í liðinni viku.
Frá fundi hjá sáttasemjara í liðinni viku. vísir/vilhelm

Sáttafundur í kjaradeilu VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins hófst í húsakynnum ríkissáttasemjara núna klukkan 10.

Fresta þurfti fundi á mánudag og þriðjudag vegna veikinda. Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, heldur fundinn í dag en fyrir helgi tilnefndi hún tólf manns í hóp aðstoðarsáttasemjara á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Munu framvegis einnn eða fleiri úr þeim hópi vera kallaður til aðstoðar í hverju sáttamáli hjá ríkissáttasemjara.

VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness vísuðu kjaradeilu sinni við SA til sáttasemjara skömmu fyrir jól og Verkalýðsfélag Grindavíkur gerði svo slíkt hið sama núna í byrjun janúar.

Fundurinn í dag er sá fjórði hjá sáttasemjara. Óljóst er hvað hann mun standa lengi en spurning er hvort að tillögur átakshóps forsætisráðherra í húsnæðismálum sem kynntar voru í gær verði til umræðu.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í gær að tillögurnar væru innlegg í kjaraviðræðurnar og þær væru til mikilla bóta verði þeim framfylgt.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á húsnæðismálin í kjaraviðræðunum og kallað eftir lausnum á þeim mikla vanda sem steðjar að á húsnæðismarkaði.

Sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að tillögur átakshópsins gætu reynst lykilatriði í kjaraviðræðunum. Frétt Stöðvar 2 um málið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.