Erlent

Jayme Closs fær sjálf fundarlaunin

Atli Ísleifsson skrifar
Jayme Closs með frænku sinni Jennifer Smith og hundinum Molly, degi eftir að Jayme komst í leitirnar í janúar.
Jayme Closs með frænku sinni Jennifer Smith og hundinum Molly, degi eftir að Jayme komst í leitirnar í janúar. AP
Bandaríska stúlkan Jayme Closs mun sjálf fá fundarlaunin sem vinnuveitendur foreldra hennar höfðu heitið hverjum þeim sem kæmi með upplýsingar sem myndi leiða til að stúlkan fyndist.

Closs fannst á vegi í Wisconsin þann 10. janúar síðastliðinn eftir að hafa verið haldið fanginni af Jake Patterson, 21 árs, í 88 daga. Maðurinn hafði rænt stúlkunni eftir að hafa skotið foreldra hennar til bana á heimili þeirra í bænum Barron.

Hormel Foods bauð 25 þúsund Bandaríkjadala, um þrjár milljónir króna, í fundarlaun fyrir upplýsingar sem myndi leiða til að Jayme kæmist í leitirnar. Foreldrar Jayme, Denise og James Closs, störfuðu bæði hjá Jennie-O, kalkúnabúi í eigu Hormel Foods.

Jake Patterson er grunaður um morð á foreldrum Jayme Closs og að hafa haldið stúlkunni fanginni í 88 daga.AP
Bandaríska alríkislögreglan FBI hét til að byrja með 25 þúsund dala fyrir upplýsingar um hvar Jayme væri raunverulega að finna, og bauðst Hormel Foods þá til að bjóða sömu upphæð. Hormel Foods tilkynnti í dag að fyrirtækið myndi afhenda Jayme 25 þúsund dalina sem fyrirtækið hafði boðið. Alríkislögreglan hefur ekki greint frá því hvað verði um það fé sem hún bauð.

Jim Snee, forstjóri Hormel Foods, segist vona að féð verði komið fyrir í banka og geti nýst Jayme síðar meir.

Patterson er nú í haldi lögreglu vegna gruns um að hafa haldið Jayme fanginni á afskekktu býli sínu í bænum Gordon, um hundrað kílómetrum frá Barron. Jayme tókst að flýja úr húsinu og varð hún á vegi nágranna Patterson sem gerði lögreglu viðvart.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×