Erlent

Evrópuþingið vill varúðarráðstöfunina

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá írsku landamærunum.
Frá írsku landamærunum. Nordicphotos/AFP
Brexit-hópur Evrópuþingsins sagði að þingið myndi ekki samþykkja útgöngusamning ríkisstjórnar Bretlands við ESB ef umdeilt ákvæði um varúðarráðstöfun fyrir fyrirkomulag landamæra Írlands og Norður-Írlands verður fjarlægt. Þessi varúðarráðstöfun er helsta ástæðan fyrir því að breska þingið felldi samninginn á dögunum og gengur út á að Norður-Írland skuli hlýða stærri hluta regluverks ESB en restin af Bretlandi, náist ekki sérstakt samkomulag um fyrirkomulag á landamærunum.

Stór hluti Íhaldsflokksins greiddi því atkvæði gegn ríkisstjórn sinni í málinu. Jacob Rees-Mogg, eiginlegt andlit hóps ósáttra, sagði svo á miðvikudag að það væri vel hægt að breyta samningnum. Til þess þyrfti varúðarráðstöfunin að fara. Þessu er Guy Verhofstadt, formaður Brexit-hópsins, ekki sammála. „Formaðurinn ítrekaði að samkomulagið væri sanngjarnt og að ekki væri hægt að semja upp á nýtt. Þetta á sérstaklega við um varúðarráðstöfunina en án hennar mun Evrópuþingið ekki samþykkja samkomulagið,“ sagði í yfirlýsingu.

Æðsti yfirmaður írsku lögreglunnar blés í gær á fréttir af því að 600 írskir lögreglumenn gætu verið sendir að landamærunum til þess að tryggja öryggi á svæðinu ef Bretland yfirgefur ESB án samnings. „Þetta hef ég aldrei talað um og ég hef aldrei íhugað slíka tillögu,“ sagði í yfirlýsingu frá Drew Harris lögreglustjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×