Erlent

Fjöldi látinna kominn í 107

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið varð í bænum Tlahuelilpan í Hidalgo-ríki.
Slysið varð í bænum Tlahuelilpan í Hidalgo-ríki. AP
Tala látinna eftir að bensínleiðsla sprakk í Mexíkó fyrir viku er nú komin í 107. Frá þessu greinir talsmaður Mexíkóstjórnar.

Fjörutíu manns eru enn á sjúkrahúsi og er ástand margra þeirra sagt alvarlegt.

Búið var að bora gat í leiðsluna í bænum Tlahuelilpan í Hidalgo-ríki og höfðu mörg hundruð flykkst á staðinn til að ná sér í bensín.

Aðstandendur látinna hafa kennt ríkisstjórn landsins um slysið, að ekki hafi verið nægilega mikið gert til að koma í veg fyrir bensínstuldi sem þarna var. Eldsneytisskortur ríkir víða í landinu.

„Huachicol“

Stolið bensín gengur undir nafninu „huachicol“ og er vanalega selt á hálfu markaðsverði. Olíuþjófnaður er alvarlegt vandamál í Mexíkó og er talið að hann hafi til dæmis kostað mexíkóska ríkið yfir þrjá milljarða Bandaríkjadala á síðasta ári.

Í fyrri frétt Vísis var sagt frá því að sjónarvottar sem komust lífs af hafi sagt að í fyrstu hafi lekinn við gatið á leiðslunni verið lítill. Hægt hafi verið að fylla eina og eina fötu í einu þannig að biðröð myndaðist. Svo virðist sem að einhver í biðröðinni hafi hins vegar rekið steypujárn í gatið í þeim tilgangi að stækka það. Við það flæddi olía út um allt og voru nærstaddir allir þaktir olíu. Skömmu síðar hafi sprengingin orðið, en ekki er vitað hvað olli henni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×