Langþráður heimasigur West Ham á Skyttunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rice skoraði sitt fyrsta mark fyrir Arsenal
Rice skoraði sitt fyrsta mark fyrir Arsenal vísir/getty

Stuðningsmenn Manchester United og Chelsea geta hugsað sér gott til glóðarinnar eftir að Arsenal tapaði fyrir West Ham í hádegisleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal hefði getað jafnað Chelsea að stigum í fjórða sætinu með sigri en í staðinn getur Chelsea farið í sex stiga forskot með sigri á Newcastle seinna í dag. United er þremur stigum á eftir Arsenal í sjötta sæti og getur því jafnað Arsenal að stigum vinni liðið Tottenham á morgun.

Hinn ungi Declan Rice skoraði eina mark leiksins snemma í seinni hálfleik en hann verður tvítugur eftir tvo daga.

Arsenal byrjaði leikinn af krafti og Alexandre Lacazette var nálægt því að koma gestunum yfir snemma leiks en Lukasz Fabianski varði vel frá honum í markinu. Þegar líða fór á hálfleikinn tóku heimamennn í West Ham leikinn yfir og voru miklu líklegri til þess að brjóta ísinn

Fyrsta markið náði þó ekki að líta dagsins ljós í fyrri hálfleik og var markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Emery reyndi hvað hann gat en sigurinn kom ekki vísir/getty

Snemma í seinni hálfleiknum kom bolti inn í teiginn sem Granit Xhaka ætlaði að hreinsa með skalla, en skallinn var ekki betri en svo að hann féll fyrir fætur Samir Nasri, sem var að spila sinn fyrsta deildarleik eftir að hafa komið til West Ham í janúar. Nasri lagði boltann út á Rice og unglingurinn átti gott skot sem endaði í netinu.

Áður en klukkutími hafði liðið af leiknum var Unai Emery búinn að sjá nóg og gerði tvöfalda skiptingu og skipti um leikkerfi. Það hafði tilætluð áhrif og Arsenal varð miklu betra á næstu mínútum.

Alex Iwobi átti gott skot sem fór rétt framhjá og Pierre-Emerick Aubameyang átti nokkur færi. Arsenal kom boltanum í markið nokkrum sinnum í leiknum en aldrei með löglegum hætti. West Ham vann varnarvinnuna frábærlega og fór með verðskuldaðan 1-0 sigur.

Þetta var fyrsti sigur West Ham á Arsenal á heimavelli sínum síðan árið 2006.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.