Enski boltinn

Umboðsmaður Özil þreyttur á slúðrinu: Verður hjá Arsenal út samninginn og mögulega lengur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Özil í leik með Arsenal fyrr á þessari leiktíð.
Özil í leik með Arsenal fyrr á þessari leiktíð. vísir/getty
Umboðsmaður Mesut Özil, Dr. Erkut Sogut, segir að Özil vilji ekki fara frá Arsenal og vilji klára samninginn sinn við félagið í það minnsta. Hann gæti mögulega verið þar lengur.

Özil hefur verið orðaður burt frá Emirates en hann hefur ekki verið í náðinni hjá nýjum stjóra Arsenal, Unai Emery. Özil var meðal annars orðaður við toppliðið í Tyrklandi, Istanbul Basaksehir.

„Ég hefði verið til í að ræða ekki opinbera um stöðuna hjá Mesut en eftir umræðuna sem hefur verið í gangi vildi ég útskýra nokkra hluti svo við getum endað þessar umræður og einbeitt okkur að fótbolta,“ sagði Erkut.

„Mesut skrifaði undir nýjan samning í janúar því hann sá framtíð í því að vera hjá Arsenal og sú staða hefur ekkert breyst. Hann vill vera hjá Arsenal út samninginn og mögulega lengur,“ en samningur Özil við félagið rennur út sumarið 2021.

Özil er nú á meiðslalistanum og var því ekki í leikmannahóp Arsenal sem vann öruggan 4-1 sigur á Fulham á nýársdag.

„Mesut er 100% einbeittur. Hann elskar félagið og langar ekki að vera neins staðar annars staðar. Hann er stoltur að bera treyju félagsins.“

„Hann tekur þeim ábyrgðum sem eru settar á hans herðar mjög alvarlega, eins og að vera einn fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð. Hann á frábært samband við liðsfélaga sína, starfsmennina og stuðningsmennina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×