Enski boltinn

Carragher: City er besta liðið í deildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leroy Sane skoraði sigurmarkið gegn Liverpool eftir stoðsendingu Raheem Sterling
Leroy Sane skoraði sigurmarkið gegn Liverpool eftir stoðsendingu Raheem Sterling vísir/getty
Jamie Carragher segir Manchester City vera besta liðið í ensku úrvalsdeildinni. City hafði betur gegn gamla liði Carragher, Liverpool, í stórleik vetrarins til þessa í gærkvöld.

Liverpool var ósigrað fyrir leikinn í gær og hefði náð tíu stiga forskoti á City með sigri í gær. Það voru hins vegar heimamenn í Manchester sem unnu og munurinn nú aðeins fjögur stig á milli liðanna.

Carragher er knattspyrnusérfræðingur hjá Sky Sports og gaf sitt álit á titilbaráttunni eftir leikinn.

„Ég held að City sé besta liðið í deildinni. Ég held að titilbaráttann sé 50-50 en hallist aðeins til City og ég held þeim lítist vel á möguleika sína,“ sagði Carragher sem spilaði 737 leiki fyrir Liverpool á 17 ára ferli.

„Fyrir Liverpool þá skiptir öllu máli að vinna deildina. En hjá City þá snýst þetta um meira en deildina. Það skiptir ekki máli hversu marga Englandsmeistaratitla Pep [Guardiola] vinnur, hann verður dæmdur á því hvort hann nái að vinna Meistaradeildina.“

„Ef Liverpool getur einbeitt sér að deildinni þá gæti það gefið þeim forskotið sem þeir þurfa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×