Íslenski boltinn

Léku alls 55 sinnum saman með íslensku landsliðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Samsett/Getty
Nýir þjálfarar íslenska 21 árs landsliðsins í knattspyrnu þekkja það vel að berjast saman fyrir íslenska knattspyrnulandsliðið.

Arnar Þór Viðarsson var í dag ráðinn sem þjálfari íslenska 21 árs landsliðsins og honum til aðstoðar verður Eiður Smári Guðjohnsen.

Arnar Þór og Eiður Smári voru herbergisfélagar í íslenska landsliðinu en þeir eru báðir fæddir árið 1978 og héldu því upp á fertugsafmælið sitt á síðasta ári.

Arnar Þór og Eiður Smári voru saman í A-landsliðinu á árinum 1999 til 2007 eða þar til Arnar Þór lék síðasta A-landsleikinn sinn út í Liechtenstein 17. október 2007. Þeir höfðu áður farið saman upp í gegnum yngri landsliðin.

Eiður Smári spilað með landsliðinu í níu ár til viðbótar eða þar til að hann lék sinn síðasta leik í átta liða úrslitum á EM í Frakklandi sumarið 2016.

Arnar Þór Viðarsson lék alls 95 leiki fyrir landslið Íslands þar af 52 leiki fyrir A-landsliðið og 17 leiki fyrir 21 árs landsliðið. Arnar er þrettándi leikjahæsti leikmaður 21 árs landsliðs Íslands frá upphafi.

Eiður Smári Guðjohnsen lék alls 135 leiki fyrir landslið Íslands og skoraði í þeim 39 mörk. Þar af voru 88 leikir og 26 mörk fyrir A-landsliðið og 11 leikir og 5 mörk fyrir 21 árs landsliðið.

Íslenska A-landsliðið spilaði alls 38 leiki þar sem bæði Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson komu við sögu en auk þess var Arnar ónotaður varamaður í einhverjum leikjum til viðbótar.

Arnar og Eiður Smári léku einn leik saman með 21 árs landsliðinu, einn leik saman með 19 ára landsliðinu og fimmtán leiki saman með 17 ára landsliðinu. Samtals léku þeir því 55 leiki saman með íslensku landsliðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×