Erlent

Setti upp keppni til að slá við stráknum sem vildi naggana

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Yusaku Maezawa sló við Carter Wilkinson og á nú heimsins útbreiddasta tíst.
Yusaku Maezawa sló við Carter Wilkinson og á nú heimsins útbreiddasta tíst. Mynd/Samsett
Japanski milljarðamæringurinn Yusaku Maezawa er nú þess heiðurs aðnótandi að eiga það tíst sem hefur verið oftast endurtíst (e. retweet). Með því sló hann við tísti bandarísks tánings sem bað um ársbirgðir af kjúklinganöggum árið 2017.

Á laugardaginn tísti Maezawa að í tilefni gríðarlegs söluárangurs fyrirtækis hans, netverslunarinnar Zosotown, ætlaði hann að gefa 100 af þeim sem myndu endurtísta tístinu á næstu tveimur dögum eina milljón jena, um eina milljón króna.

Viðbrögðin stóðu ekki á sér en þegar þetta er skrifað hefur tístinu verið endurtíst 4,8 milljón sinnum sem gerir tístið útbreiddara en tíst bandaríska táningsins Carter Wilkinson. Árið 2017 sendi hann skilaboð á Twitter til skyndibitakeðjunnar Wendy's um hversu mörg endurtíst hann þyrfti að ná til þess að fá ókeypis ársbirgðir af kjúklinganöggum.

18 milljónir var svarið sem hann fékk til baka og hófst Wilkinson þá handa við að safna endurtístum. Þrátt fyrir að táningurinn hafi ekki náð takmarkinu sem Wendy's setti honum náði hann upp í 3,6 milljón endurtíst, heimsmet þangað til nú. Sló hann þar með spjallþáttastjórnandanum Ellen deGeneres sem átt metið á undan honum, með svokallaðri sjálfu frá Óskarsverðlaunahátíðinni.

Maezawa komst í heimsfréttirnar á síðasta ári er hann tryggði sér sæti sem farþegi í fyrsta farþegaflugi bandaríska geimfyrirtækisins Space X í kringum tunglið árið 2023.

Japanski milljarðamæringurinn er 18. ríkasti maður Japans og eru eignir hans metnar á um 327 milljarða hena, um 350 milljóna íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×