Mikil spenna hefur myndast milli Bandaríkjanna og Íran á undanförnum dögum. Íranar hafa verið sakaðir um árásir gegn olíuframleiðslu í Sádi-Arabíu og Bandaríkin hafa aukið við herlið sitt á svæðinu. Þá voru flestir starfsmenn Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna í Írak kallaðir heim í gær.
Bandaríkin hafa vísað í ótilgreindar upplýsingar um mögulegar árásir á bandaríska hermenn eða hagsmuni á svæðinu en bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu hafa lýst yfir efasemdum um aðgerðir og staðhæfingar Bandaríkjanna.
New York Times segir að rekja megi viðvaranir og aðgerðir Bandaríkjanna til mynda sem sýndu herafla Íran koma eldflaugum fyrir á bátum í Persaflóa.
Sjá einnig: Íran - „Á barmi átaka við óvininn“
Samkvæmt heimildum Washington Post innan Hvíta hússins varð Trump reiður í samræðum við þá John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra, í síðustu viku.
„Þeir eru að fara langt fram úr sér og Trump er pirraður,“ sagði einn heimildarmaður WP.
Annar sagði Bolton og Trump líta deilurnar allt öðrum augum. Bolton hefur kallað opinberlega eftir því að Bandaríkin velti ríkisstjórn Íran úr sessi með hervaldi en Trump vill gera samkomulag. Forsetinn er ekki sáttur við allt þetta tal um stjórnarskipti og þykir það minna mikið á áróður í aðdraganda innrásar Bandaríkjanna í Íran 2003.
Þrátt fyrir það dró Trump Bandaríkin út úr Kjarnorkusamkomulaginu svokallaða sem Bandaríkin, Kína, Rússlands, Bretland, Frakkland og Þýskaland gerðu við Íran árið 2015. Því samkomulagi var ætlað að koma í veg fyrir að Íranar kæmu upp kjarnorkuvopnum og var refsiaðgerðum aflétt í staðinn.
Í kjölfar þess að Trump dró Bandaríkin út úr samkomulaginu hefur hann beitt umfangsmiklum viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gegn Íran. Markmiðið var að lama efnahag ríkisins.
Trump sjálfur tísti um sögusagnir um deilur innan Hvíta hússins í gær og sagði þær ekki til staðar. Hann sagði starfsmenn sína segja skoðanir sínar en hann sjálfur taki allar ákvarðanir. Þá tók Trump fram að hann væri viss um Íranar myndu brátt opna á viðræður.
....Different opinions are expressed and I make a decisive and final decision - it is a very simple process. All sides, views, and policies are covered. I'm sure that Iran will want to talk soon.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 15, 2019