Erlent

Beina sjónum sínum að kanna­bis­vökvum í rann­sókn á raf­rettu­veikindum

Sylvía Hall skrifar
Ekki er búið að finna neinn beinan orsakavald og því ekki hægt að rekja veikindin til einnar sérstakrar rafrettuvöru.
Ekki er búið að finna neinn beinan orsakavald og því ekki hægt að rekja veikindin til einnar sérstakrar rafrettuvöru. Vísir/Getty
Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú þrettán dauðsföll sem eru tengd rafrettunotkun. Alls hefur verið tilkynnt um 805 veikindi tengd rafrettunotkun sem er yfir 52% aukning í heildarfjölda á einni viku.

Í frétt AP um málið kemur fram að rannsóknin beinist nú einna helst að rafrettuvökvum sem innihalda THC. Efnið er oft kallað virka efnið í kannabis sem veldur vímuáhrifum.

Ekki er vitað hvort THC efnið sjálft er það sem veldur mesta skaðanum eða hvort það sé blöndunin á vökvanum sjálfum. Ekki er búið að finna neinn beinan orsakavald og því ekki hægt að rekja veikindin til einnar sérstakrar rafrettuvöru.

Flestir þurfa að leggjast inn á sjúkrahús 

Fyrsta tilfellið kom upp í mars á þessu ári en fór að fjölga nú í sumar. Mikil aukning varð í júlímánuði og virðist tilfellunum aðeins fjölga með tímanum. Einungis Bandaríkin hafa talað um að um faraldur sé að ræða en fyrsta tilfellið í Kanada var staðfest í vikunni. 

Meðalaldur þeirra sem veikjast er 23 ára en alvarlegustu tilfellin sem hafa leitt fólk til dauða eru algengari á meðal þeirra sem eldri eru, en meðalaldur þeirra sem hafa látist af völdum sjúkdómsins er fimmtíu. 90% þeirra sem hafa veikst hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús til meðferðar.

Helstu einkenni svipa til veikinda í öndunarfærum en sjúklingar hafa kvartað undan andarteppu, þreytu, verkjum í brjóstholi, niðurgangi og uppköstum.

16% þeirra sem hafa fundið fyrir slíkum einkennum segjast aðeins hafa notað nikotínvökva í rafrettur en ekki THC-vökva. Fimm þeirra sem hafa látist neituðu einnig að hafa notað kannabisefni í rafrettur. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.