Ný útgönguspá bendir til þess að miðju-hægri flokkurinn Nýtt lýðveldi sigri þingkosningarnar í Grikklandi með 38% til 42% atkvæða. Það fylgi myndi gefa flokknum hreinan meirihluta á þinginu í ljósi þess að sigurvegarinn þar í landi fær úthlutað 50 auka þingsætum.
Því er talið að flokkurinn, sem er leiddur af Kyriakos Mitsotakis, sigri Syriza-flokk sitjandi forsætisráðherra Alexis Tsipras. Er vinstriflokki hans spáð 26,5% til 31,5% fylgi.
Þingkosningar fara fram í Grikklandi í dag en sitjandi forsætisráðherra boðaði snögglega til kosninga eftir að flokkur hans laut í lægra haldi í Evrópuþingskosningunum í maí síðastliðnum.
Syriza-flokkurinn hefur verið við völd frá árinu 2015 með Tsipras í broddi fylkingar en Nýi lýðveldisflokkur Kyriakos Mitsotakis vonast nú til þess að ná kjöri og binda enda á stjórnartíð Tsipras. Um er að ræða sjöttu þingkosningarnar í Grikklandi frá efnahagshruninu árið 2008
