Erlent

Nafngreina fjóra ákærða í MH17-máli

Atli Ísleifsson skrifar
Frá fréttamannafundi rannsakenda og saksóknara í Nieuwegein í Hollandi í morgun.
Frá fréttamannafundi rannsakenda og saksóknara í Nieuwegein í Hollandi í morgun. EPA
Fjórir menn hafa verið ákærðir fyrir að hafa borið ábyrgð á að MH17, vél Malaysian Airlines, var grandað í Úkraínu fyrir fimm árum. Greint var frá ákærunum í morgun og sagt að réttarhöld muni hefjast í Hollandi í mars á næsta ári.

Alls voru 298 manns um borð í vélinni þegar henni var grandað þann 17. júlí 2014 og komst enginn lífs af. 196 hinna látnu voru hollenskir ríkisborgarar og 38 ástralskir, en skotið var á vélina á landsvæði sem var undir stjórn aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Fyrir rúmu ári síðan greindi hópur alþjóðlegra rannsakenda, undir stjórn Hollendinga, að BUK-eldflaugakerfi, framleitt í Rússlandi, hafi verið notað til að granda vélinni sem var á leið frá Amsterdam í Hollandi til Kúala Lúmpúr í Malasíu.

Olena Zerkal, aðstoðarutanríkisráðherra Úkraínu, segir að í hópi fjórmenninganna eru háttsettir menn innan rússneska hersins. Í frétt Moscow Times segir að mennirnir sem um ræðir séu þeir Igor Girkin, Sergei Dubinsky og Oleg Pulatov, allt rússneskir ríkisborgarar, auk Úkraínumannsins Leonid Kharchenk.

Alls fórust 298 manns þegar MH17 var grandað.AP
Stjórnvöld í Hollandi og Ástralíu hafa sakað rússnesk stjórnvöld um aðild að tilræðinu, en Rússar hafa hins vegar hafnað ásökunum.

BBC hefur eftir Dmitri Peskov, talsmanni Rússlandsstjórnar, að Rússum hafi ekki verið gefið færi á að taka þátt í rannsókninni. Aðspurður um hvort að Rússar myndu framselja einhverja hinna grunuðu, sagði Peskov að „afstaða Rússa væri vel þekkt“ þó að hann hafi ekki viljað útskýra málið nánar.

Talsmaður hollenskra yfirvalda segir að líklegt sé að réttað verði yfir mönnunum í fjarveru þeirra (in absentia).


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.