Erlent

Brot úr „rússnesku eldflaugakerfi“ finnast þar sem MH17 brotlenti

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórnvöld í Úkraínu og fjölda vestrænna ríkja hafa áður sakað rússneska aðskilnaðarsinna um að hafa fjarlægt mikilvæg sönnunargögn á staðnum þar sem vélin var skotin niður með þeim afleiðingum að allir 298 um borð fórust.
Stjórnvöld í Úkraínu og fjölda vestrænna ríkja hafa áður sakað rússneska aðskilnaðarsinna um að hafa fjarlægt mikilvæg sönnunargögn á staðnum þar sem vélin var skotin niður með þeim afleiðingum að allir 298 um borð fórust. Vísir/AFP
Brot sem eru talin vera úr rússnesku eldflaugakerfi hafa fundist á staðnum þar sem vél Malaysia Airlines MH17 brotlenti í austurhluta Úkraínu síðasta sumar.

Hópurinn sem rannsakar málið segir mögulegt að brotin séu úr Buk-eldflaugakerfi og þau geti aðstoðað við að ákvarða hverjir bera ábyrgð á að hafa skotið vélina niður.

Stjórnvöld í Úkraínu og fjölda vestrænna ríkja hafa áður sakað rússneska aðskilnaðarsinna um að hafa fjarlægt mikilvæg sönnunargögn á staðnum þar sem vélin var skotin niður með þeim afleiðingum að allir 298 um borð fórust. 

Rússar og aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu saka úkraínska herinn um að hafa grandað vélinni.

Í frétt BBC segir að rannsóknarhópurinn enn eigi eftir að sanna orsakasamhengi milli brotanna og að vélin hafi verið skotin niður.

Fulltrúar frá Hollandi, Úkraínu, Malasíu, Ástralíu, Bretlandi, Bandaríkjunum og Rússlandi eiga sæti í rannsóknarhópnum.

Þeir funda nú í Haag þar sem þeir ræða drög að skýrslu um orsakir atburðarins. Búist er við að lokaútgáfa skýrslunnar verði gerð opinber í október.


Tengdar fréttir

Tæknilega fullkomið Buk-eldflaugakerfi grandaði MH17

Flókið og tæknilega fullkomið Buk-eldflaugakerfi var notað til að granda MH17 vél Malaysian Airlines. Úkraínsk stjórnvöld saka rússneska aðskilnaðarsinna um að hafa fjarlægt mikilvæg sönnunargögn á staðnum þar sem vélin var skotin niður með þeim afleiðingum að allir um borð fórust.

Farþegaþota með 295 farþegum innanborðs hrapar í Úkraínu

Boeing-vél malasíska flugfélagsins Malaysian Airlines á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur var skotin niður á landamærum Úkraínu og Rússlands, samkvæmt heimildum Interfax. 295 farþegar voru um borð og eru allir taldir af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×