Erlent

Ratas myndar nýja stjórn með hægri­flokknum

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn fertugi Jüri Ratas tók við embætti forsætisráðherra árið 2016.
Hinn fertugi Jüri Ratas tók við embætti forsætisráðherra árið 2016. EPA
Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, mun áfram stýra landinu eftir að meirihluti eistneska þingsins studdi tillögu um hann sem næsta forsætisráðherra í dag. Alls greiddu 55 þingmenn atkvæði með tillögunni, en 44 voru á móti.

Miðflokkurinn, sem Ratas stýrir, mun stýra landinu með íhaldsflokknum Isamaa og hægriöfgaflokknum Ekre, en saman fengu þeir 56 þingsæti af 101. Þingkosningar fóru fram í landinu 3. mars síðastliðinn.

Kersti Kaljulaid Eistlandsforseti fól Ratas að mynda nýja stjórn eftir að meirihluti þingsins hafnaði tillögu um að Kaja Kallas, formaður hins frjálslynda Umbótaflokks, yrði næsti forsætisráðherra landsins. Forsetinn leitaði fyrst til Kallas þar sem Umbótaflokkurinn hlaut flest atkvæði í kosningunum.

Ratas hefur nú vikufrest til að kynna nýja ríkisstjórn sína, en Miðflokkur hans nýtur að stórum hluta stuðnings hinna rússneskumælandi í landinu.

Hinn fertugi Jüri Ratas tók við embætti forsætisráðherra árið 2016. Hann gegndi embætti borgarstjóra Tallinn á árunum 2005 til 2007.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.