Enski boltinn

Burnley búið að kaupa Joe Hart frá Man City

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Joe Hart bar fyrirliðaband Man City í æfingaleik gegn Liverpool á dögunum
Joe Hart bar fyrirliðaband Man City í æfingaleik gegn Liverpool á dögunum vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson er kominn með nýjan liðsfélaga þar sem Burnley hefur gengið frá kaupum á enska markverðinum Joe Hart frá Englandsmeisturum Manchester City.

Burnley borgar 3,5 milljónir punda fyrir þennan 31 árs gamla markvörð sem á 75 A-landsleiki fyrir England en hann missti stöðu sína í enska landsliðinu á síðasta ári.

Hart varði mark Man City þegar liðið varð Englandsmeistari 2012 og 2014 en hefur undanfarin tvö tímabil verið sendur á lán, fyrst til Torino í Serie A og svo til West Ham á síðustu leiktíð þar sem hann missti byrjunarliðssætið til Adrian um mitt tímabil.

Sean Dyche, stjóri Burnley, þurfti nauðsynlega á markverði að halda þar sem þeir Tom Heaton og Nick Pope eru frá vegna meiðsla. Burnley er því nú með þrjá markverði á samning sem eiga A-landsleik fyrir England.

Burnley heimsækir Southampton í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×