Erlent

Donald Trump íhugar að loka landamærunum að Mexíkó

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump er hann ræddi við hermenn í síma í gær. Nordicphotos/AFP
Donald Trump er hann ræddi við hermenn í síma í gær. Nordicphotos/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, íhugar nú að loka landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó um óákveðinn tíma ef ríkisstjórn hans kemst að þeirri niðurstöðu að mexíkóska ríkisstjórnin hafi „misst alla stjórn“.

Forsetinn vísaði sérstaklega til ástandsins í mexíkósku landamæraborginni Tijuana. Þangað er stór hluti hinnar svokölluðu flóttamannalestar, sem Trump ræddi mikið um í aðdraganda miðkjörtímabilskosninga sem fram fóru fyrr í mánuðinum. Hann sagði ástandið þar nú „afar slæmt“ og sagði samkvæmt fréttaveitu AP:

„Ef við komumst að því að það er ekki hægt að hafa stjórn á ástandinu þarna þá munum við loka fyrir allan aðgang að Bandaríkjunum þar til hægt er að hafa stjórn á svæðinu á ný. Loka öllum landamærunum.“

Hundruð íbúa Tijuana hafa mótmælt komu flóttafólksins að undanförnu. Í vikunni var greint frá því að um 3.000 flóttamenn væru komnir til borgarinnar og að mótmælendur hefðu heyrst hrópa: „Út, út, út! Við viljum ykkur ekki í Tijuana.“

Trump fyrirskipaði í aðdraganda kosninganna fyrr í mánuðinum að senda skyldi þúsundir hermanna að landamærunum til þess að tryggja öryggi þar. Frá því að þeir komu að landamærunum hafa hermennirnir lítið haft að gera. Í viðtölum við Vice um miðjan mánuð sögðu hermenn að þeir hefðu verið að koma upp gaddavír en lítið annað gert.

Aukinheldur sagði Trump í gær að ef nauðsyn krefur mættu hermenn beita banvænum vopnum gegn þeim sem reyna að komast yfir landamærin. „Ég vona að hermennirnir þurfi þess ekki. En ég á ekki annarra kosta völ. Við erum að fást við afar harðsvírað fólk.“

Alríkisdómari sagði á þriðjudag að Trump mætti ekki neita öllum sem fara yfir landamærin ólöglega um hæli. Úrskurðinum hefur verið áfrýjað. Forsetinn sagði í tísti í gær að það væri ekki hlutverk dómara að reyna að setja lög um öryggismál og landamærin, né nokkuð annað. „Þeir vita ekkert um þetta og draga úr öryggi. Okkar frábæra löggæslufólk VERÐUR AÐ FÁ AÐ VINNA VINNUNA SÍNA. Ef það má ekki hættum við á glundroða, meiðslum og dauða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×