Innlent

Fá 48 tíma til að vinna saman tölvuleik

Lovísa Arnardóttir skrifar
Alexandra Bjargardóttir hjá CCP, einn skipuleggjenda alþjóðlega leikjadjammsins.
Alexandra Bjargardóttir hjá CCP, einn skipuleggjenda alþjóðlega leikjadjammsins. Vísir/eyþór
Samband íslenskra leikjaframleiðenda (IGI) heldur leikjadjamm í Háskólanum í Reykjavík um helgina. Þátttakendur fá 48 klukkustundir til að vinna að nýjum leik.

„Fulltrúi frá alþjóðlegu samtökunum hafði samband við okkur og við ákváðum að prófa að halda svona viðburð hér. Síðast þegar ég vissi voru þátttakendur frá 113 löndum búnir að skrá sig,“ segir Alexandra Bjargardóttir, sem er varamaður í stjórn hjá IGI og markaðssérfræðingur hjá CCP.

Þetta er stærsta leikjadjamm í heiminum. Fyrsta alþjóðlega leikjadjammið var haldið árið 2009.

„Við fáum að vita á föstudaginn hvert þemað er. Þetta er gert svo fólk sé ekki að undirbúa sig eða byrjað að vinna í einhverju áður en það mætir. Fólk fær því einungis þessar 48 klukkustundir til að vinna að einhverju nýju saman,“ segir Alexandra.

IGI hélt samtals fjögur leikjadjömm 2017, sem skiluðu 35 fjölbreyttum og skemmtilegum leikjum.

„Það er svipaður fjöldi skráður og hefur verið að mæta á okkar viðburði. Það hefur yfirleitt verið um þriðjungur þátttakenda sem er ekki endilega að vinna við að búa til leiki eða hefur gert það áður, heldur hefur það sem sérstakt áhugamál. Líkt og fólk sem býr til tónlist eða tekur ljósmyndir, þá hafa margir það sem áhugamál að búa til tölvuleiki,“ segir Alexandra.

Leikjadjammið er haldið í fyrsta sinn í Reykjavík í ár, en viðburðurinn var haldinn á Kollafossi árið 2016. Djammið hefst klukkan 17.00 í dag, föstudag og verður stofa M110 í HR þátttakendum opin alla helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×