Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í dauðafæri á að komast í lokakeppni HM í fyrsta skipti í sögunni og spilar mikilvægasta leik sinn til þessa á laugardaginn. Sama hvernig fer þá kemur mót á eftir HM í Frakklandi og England hefur lagt fram umsókn um að halda EM 2021.
Síðasta Evrópumót kvenna var haldið í Hollandi fyrir ári síðan. Þar var Ísland á meðal þátttökuþjóða og duttu stelpurnar út eftir riðlakeppnina. Heimakonur í hollenska liðinu unnu mótið.
Knattspyrnusambönd Evrópu geta sent inn umsóknir um að halda næstu lokakeppni allt til vikuloka, föstudagsins 31. ágúst. Formaður enska knattspyrnusambandsins, Martin Glenn, staðfesti í dag að Englendingar sækjast eftir því að halda mótið.
„Umsókn okkar um að halda EM 2021 endurspeglar skuldbindingu okkar í því að styðja við kvennaknattspyrnu og hjálpa henni að vaxa á Englandi,“ sagði í tilkynningu frá sambandinu.
Úrslitaleikur EM karla 2020 mun fara fram á Wembley, mótið sjálft er leikið út um alla Evrópu í tilefni afmælis UEFA, og ef enska umsóknin fær hljómgrunn mun úrslitaleikur EM kvenna fara fram ári síðar á sama velli.
UEFA mun tilkynna hvaða þjóð fær að halda mótið 3. desember. Austurríki og Ungverjaland hafa einnig sent inn umsóknir um mótið til UEFA.

