
Þetta er seinni líður í innleiðingu nýrra verndartolla en í síðasta mánuði gengu í gildi tollar á ál og stál. Tollar á innflutt stál nema 25 prósent og 10 prósent á ál.
Kanada, Mexíkó og ríki Evrópusambandsins falla ekki undir tollana en samið verður um innfluting þaðan til Bandaríkjanna. Tollunum er að mestu beint gegn Kínverjum.
Seint í gærkvöldi tilkynntu Kínversk stjórnvöld um mótaðgerðir gegn verndartollum Bandaríkjanna og segja sig vernda hagsmuni sína gegn útspili Hvíta hússis.
Verndartollar Kínverja leggjast fyrst og fremst á matvæli frá Bandaríkjunum en þeir ná til 128 vöruflokka. Um er að ræða 25 prósent á varning á borð við frosið svínakjöt, ávexti og vín.
Talsmenn Hvíta hússins hafa brugðist ókvæða við og segja aðgerðir Kínverja beinast gegn heiðarlegum viðskiptaháttum. Heldur ættu þeir að taka til heima hjá sér og hætta sínum óheiðarlegu viðskiptaháttum.
Viðskiptastríð í uppsiglingu?
Sérfræðingar hafa áhyggjur af því að viðskiptastríð sé í uppsiglingu á milli Bandaríkjanna og Kína. Verði af útspili Bandaríkjanna síðar í vikunni muni það dýpka ófriðinn en talið er að alls geti tollarnir kostað Kínverja allt að 60 milljarða dollara. Kínverjar hafa lofað að svara öllum aðgerðum Bandaríkjanna í sömu mynt.

Samtök smásöluiðnaðarins í Bandaríkjunum hefur þá gagnrýnt tollana harðlega og sagt þá skatt á amerískar fjölskyldur. Tollarnir muni á endanum skila sér út í verðlagið og bitna þannig á almenningi.