Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, sagðist ekki hafa verið að refsa Paul Pogba fyrir lélega frammistöðu gegn Tottenham með því að láta hann byrja á bekknum gegn Huddersfield í gær.
Pogba var kippt af velli í stöðunni 0-2 á Wembley á dögunum en á netinu birtust myndbönd þar sem Mourinho virtist húðskamma Pogba stuttu áður.
Fyrir vikið vakti það töluverða athygli að Pogba skyldi byrja á bekknum í gær enda einn besti leikmaður liðsins en Scott McTominay tók stöðu hans í liðinu.
„Ég gerði nokkrar breytingar og það var ekki til að refsa neinum, ef ég ætlaði að gera það þyrfti ég að refsa mér líka þar sem við vinnum og töpum saman sem lið,“ sagði Mourinho eftir leik og bætti við:
„Paul er einn besti leikmaður heims og ég var ekki að refsa honum. Að byrja á bekknum einn dag þýðir ekki neitt, hann kom inná og spilaði mjög vel.“
Mourinho segist ekki hafa verið að refsa Pogba með bekkjarsetu

Tengdar fréttir

Sanchez kominn á blað með Man Utd
Man Utd tókst að saxa á forystu Man City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á nýliðum Huddersfield.