Enski boltinn

Mourinho tilbúinn til að selja Martial utan Englands

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Anthony Martial hefur lítið fengið að spila keppnisleiki fyrir United
Anthony Martial hefur lítið fengið að spila keppnisleiki fyrir United vísir/getty
Frakkin Anthony Martial hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester United undir stjórn Jose Mourinho og ekki náð að sanna sig til þessa í æfingaferð liðsins í Bandaríkjunum. Mourinho er tilbúinn til þess að selja leikmanninn, en hann má þó ekki fara til Chelsea.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að það sé áhugi fyrir leikmanninum innan herbúða Lundúnaliðsins. Mourinho vill hins vegar ekki selja Martial til liðs á Englandi.

Martial hló að blaðamanni og gekk í burtu þegar hann var spurður hvort hann yrði áfram hjá United eftir markalaust jafntefli við San Jose Earthquakes fyrir hálf tómum velli í Kaliforníu í gærkvöld. Martial á að hafa komist að þeirri niðurstöðu að honum sé ómögulegt að vinna Mourinho á sitt band.

Martial kostaði United 36 milljónir punda fyrir þremur árum þegar hann kom frá Mónakó. Hann var í byrjunarliði United í 18 leikjum á síðasta tímabili og er fyrir aftan Marcus Rashford og Alexis Sanchez í goggunarröðinni.

Ed Woodward, framkvæmdarstjóri United, vill hins vegar halda Martial hjá félaginu þar sem hann heldur leikmanninn geta orðið einn þann besta í heimi.

Mourinho ætlar ekki að standa í vegi fyrir Martial biðji hann um sölu frá félaginu, svo lengi sem hann verði seldur til félags utan Englands. Þá mun verðmiðinn á Martial vera að minnsta kosti 60 milljónir punda.

Juventus hafði áhuga á Martial en á líklega ekki efni á honum eftir kaupin á Cristiano Ronaldo. Bayern München gæti verið líklegur áfangastaður og yrði Martial þá dýrasti leikmaður í sögu félagsins.


Tengdar fréttir

Martial vill yfirgefa United

Anthony Martial, framherji Manchester United, hefur ákveðið það að hann vilji yfirgefa félagið en þetta kemur fram í máli umboðsmanns Frakkans.

Pochettino sagður vilja Martial

Breski miðillinn The Telegraph greinir frá því að Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, vilji ólmur fá Anthony Martial frá Manchester United í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×