Erlent

Norska ríkisstjórnin heldur velli

Kjartan Kjartansson skrifar
Knut Arild Hareide, formaður Kristilega þjóðarflokksins, Trine Skei Grande , formaður Venstre, Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins og Erna Solberg forsætisráðherra og formaður Hægriflokksins daginn eftir kosningar í september. Saman hafa þau myndað svonefnda bláa blokk í norskum stjórnmálum.
Knut Arild Hareide, formaður Kristilega þjóðarflokksins, Trine Skei Grande , formaður Venstre, Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins og Erna Solberg forsætisráðherra og formaður Hægriflokksins daginn eftir kosningar í september. Saman hafa þau myndað svonefnda bláa blokk í norskum stjórnmálum. Vísir/AFP
Aukalandsfundur Kristilega þjóðarflokksins í Noregi ákvað að halda áfram stuðningi sínum við hægristjórn Ernu Solberg forsætisráðherra í dag. Knut Arild Hareide, formaður flokksins, ætlar að segja af sér í kjölfarið en hann vildi vinna með flokkum af vinstri vængnum.

Hægriflokkur Solberg og Framfaraflokkurinn hafa unnið saman í ríkisstjórn frá árinu 2013 með stuðningi Venstre og Kristilega þjóðarflokksins. Venstre gekk síðan til liðs við stjórnina í janúar en þjóðarflokkurinn stóð áfram utan hennar þó að hann héldi áfram stuðningi við hana.

Hareide lýsti því óvænt yfir að hann vildi frekar samstarf við vinstri blokkina á norska Stórþinginu fyrir fimm vikum. Flokkurinn hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarið og á það á hættu að þurrkast út. Hareide hefur jafnframt sagt að hann vilji ekki vinna með Framfaraflokknum sem er lengst til hægri í norskum stjórnmálum.

Greidd voru atkvæði á aukalandsfundi flokksins í dag og vildi meirihluti halda tryggð við núverandi ríkisstjórn, að sögn norska ríkisútvarpsins. Níutíu og átta fulltrúar greiddu atkvæði með því að halda stuðningnum áfram en níutíu vildi fylgja formanninum.

Hareide lýsti yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðuna og segist ætla að segja af sér sem formaður en halda áfram sem þingmaður.


Tengdar fréttir

Hægri stjórn Ernu Solberg í Noregi gæti fallið

Hægri stjórn Ernu Sólberg í Noregi gæti fallið á næstu dögum en Kristilegi þjóðarflokkurinn ákveður á morgun hvort hann stendur með stjórnarflokknum eða hallar sér til vinstri. Forsætisráðherrann er þó bjartsýn á að hún haldi forsætisráðherrastólnum. Heimir Már er í Osló.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.