Verkfræðingar SpaceX fundu upp á því ráði að ofurkæla eldsneyti eldflauga sinna til þess að þjappa því saman og koma þannig meira af því á tankana. Þannig yrðu eldflaugarnar kraftmeiri. Sá böggull fylgdi hins vegar skammrifi að þetta kallaði á að fylla þurfti á eldsneytistanka eldflauganna rétt fyrir geimskot.
Þetta veldur öryggissérfræðingum NASA og bandarískum þingmönnum áhyggjum. Aðeins þyrfti slys eða lítinn neista til þess að sprenging yrði. Eldflaug SpaceX sprakk í loft upp þegar verið var að fylla eldsneyti á hana fyrir vélarpróf á skotpalli á Canaveral-höfða á Flórída í september árið 2016.
SpaceX á að byrja að flytja geimfara út í geim þegar á þessu ári. Ráðgjafaráð NASA skrifaði meðal annars bréf fyrir þremur árum þar sem varað var við því að þessi aðferð stangaðist á við öryggisstaðla fyrir eldflaugarþrep sem hafa verið í gildi í meira en fimmtíu ár.
Bandarísk þingnefnd gekk meðal annars á varaforseta SpaceX um öryggi aðferðarinnar þegar hann sat fyrir svörum fyrr á þessu ári, að því er segir í umfjöllun Washington Post.
NASA sögð of áhættufælin
Fulltrúar SpaceX segja aftur á móti að færi eitthvað úrskeiðis myndi neyðarkerfi eldflaugarinnar koma geimförunum í öruggt skjól. Meira eldsneyti geri eldflaugarnar jafnframt öruggari þar sem þá sé meira svigrúm til að bregðast við neyðarástandi á flugi.Gagnrýnendur NASA telja að stofnunin sé of varfærin eftir að hafa misst fjórtán geimfara þegar geimskutlurnar Challenger og Columbia fórust árin 1986 og 2003. Geimskutluáætlunni var hætt árið 2011 í kjölfar Columbia-slyssins. NASA var í bæði skipti gagnrýnd fyrir lélegt áhættumat.
Robert Lightfoot, nýr forstjóri NASA, hefur harmað að stofnunin hafi orðið of áhættufælin. Dró hann í efa að NASA hefði nokkru sinni ráðist í Apollo-leiðangrana til tunglsins í núverandi umhverfi. Hann útilokar ekki að SpaceX fái leyfi til að fylla ofurkældu eldsneyti á eldflaugar fyrir mannaðar ferðir.
NASA gerir þá kröfu til SpaceX og Boeing, sem þróa nú geimferjur til að flytja menn fyrir stofnunina, að líkurnar á dauðsfalli megi ekki vera meiri en eitt í hverjum 270 ferðum.
Sérfræðingar vara hins vegar við því hversu erfitt er að leggja mat á áhættu við mannaðar geimferðir. Til þess eru óvissuþættirnir of margir. Þannig áætlaði NASA fyrst að hætta við geimskutlurnar væri á bilinu eitt dauðsfall í fimm hundruð til fimm þúsund ferðum. Þegar áætluninni lauk kom hins vegar í ljós að líkurnar á dauðsfalli voru einn á móti tólf.