Milos Forman, tékknesk ættaði leikstjórinn sem er þekktastur fyrir kvikmyndirnar „Gaukshreiðrið“ og „Amadeus“ er látinn, 86 ára að aldri. Hann lést í Bandaríkjunum eftir skammvinn veikindi, að sögn eiginkonu hans.
Alls hlaut Forman þrettán Óskarsverðlaun fyrir myndirnar tvær, þar á meðal sem besti leikstjórinn fyrir þær báðar. Hann festi einnig rokksöngleikinn „Hárið“ á filmu árið 1979 og var aftur tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir myndina „Ríkið gegn Larry Flint“ árið 1996.
Forman fæddist í Tékkóslóvakíu árið 1932. Hann flutti til Bandaríkjanna eftir að Sovétmenn börðu niður uppreisnina sem var nefnd Vorið í Prag árið 1968. Forman öðlaðist bandarískan ríkisborgararétt á 8. áratugnum, að því er segir í frétt Reuters af andláti leikstjórans.
