Erlent

Miklar raskanir á flugi frá Gatwick vegna dróna

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Frá Gatwick-flugvelli.
Frá Gatwick-flugvelli. vísir/epa
Miklar raskanir hafa orðið á flugi frá Gatwick flugvelli eftir að drónar sáust á flugi í grennd við völlinn.

Gatwick er næstfjölsóttasti flugvöllur Bretlands og hafa farþegar verið varaðir við því að tafir gætu staðið fram eftir degi, á meðan málið er rannsakað.

Vellinum var lokað klukkan níu í gærkvöldi en hann opnaði síðan í skamma stund um klukkan þrjú í nótt en honum var lokað á ný skömmu síðar þar sem drónar sáust enn á sveimi.

Vélum sem áttu að lenda á vellinum hefur verið beint til Heathrow, Luton og Manchester.

Bannað er að fljúga dróna í minna en eins kílómeters fjarlægð frá flugvöllum og aðflugsleiðum flugvalla og einnig er óheimilt að fljúga dróna í meira en 120 metra hæð.

Ekkert er vitað hver eða hverjir flugu drónunum sem hafa valdið þessum miklu röskunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×