Innlent

Fyrsti bankaræninginn á Svalbarða var rússneskur túristi

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn lét greipar sópa í útibúi SpareBank 1 Nord-Norge,
Maðurinn lét greipar sópa í útibúi SpareBank 1 Nord-Norge, Google
Maðurinn sem rændi banka í miðbæ Longyearbyen á Svalbarða í gær var 29 ára rússneskur ferðamaður. Um var að ræða fyrsta bankaránið í sögu eyjaklasans.

Norskir fjölmiðlar segja manninn hafa ruðst inn í bankaútibú Spar Bank 2 Nord Norge fyrir hádegi í gær og var hann vopnaður skotvopni.

Alls voru þrír starfsmenn í bankanum þegar maðurinn kom inn, en engir viðskiptavinir. Starfsmenn þrýstu á neyðarhnappinn og var maðurinn handtekinn skömmu eftir að hann flúði úr bankanum. Hann hafði þá náð rúmlega 70 þúsund norskra króna, tæpa milljón íslenskra króna, úr bankanum.

Maðurinn hefur nú verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald og dvelur í fangelsi í Tromsø á norska meginlandinu. Hann er sagður vera rússneskur ferðamaður sem hafi fengið riffil lánaðan á eyjunni. Hægt er að fá riffil lánaðan á Svalbarða til að verjast árásum hvítabjarna og þarf einungis að sýna fram á hreint sakavottorð.

Alls búa rúmlega tvö þúsund manns í Longyearbyen og greinir NRK frá því að þetta sé fyrsta bankaránið á Svalbarða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×