Enski boltinn

Fullvissaði Gylfa um að hann væri ennþá vítaskytta liðsins þrátt fyrir klúðrin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skorar úr vitinu.
Gylfi Þór Sigurðsson skorar úr vitinu. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson er ennþá vítaskytta Everton þrátt fyrir að hafa klúðrað tveimur vítaspyrnum á tímabilinu. Knattspyrnustjóri Everton hefur fulla trú á vítaspyrnutækni íslenska landsliðsmannsins.

Gylfi skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnu á móti Burnley á öðrum degi jóla og eftir leik sagði Gylfi blaðamanni Liverpool Echo frá samtali sínu við knattspyrnustjórann Marco Silva.

Gylfi hafði klúðrað vítaspyrnum á móti bæði Watford og Fulham fyrr á þessu tímabili. Einhverjir bjuggust jafnvel við því að íslenski landsliðsmaðurinn fengi ekki að taka fleiri víti fyrir Everton í vetur. Annað kom á daginn.





„Stjórinn talaði við mig og sagði mér hann hefði ennþá fulla trú á mér,“ sagði Gylfi við Liverpool Echo. 

Vítaspyrna Gylfa á móti Burnley var mjög örugg eins og sést hér.Vísir/Getty
„Fyrir Man. City leikinn og eftir vítaklúðrið á móti Watford þá lét hann mig vita af því að ég tæki næstu vítaspyrnu. Ég hélt því áfram að æfa vítin á æfingum og blessunarlega fór þessi í markið,“ sagði Gylfi.

„Þú ert alltaf vonsvikinn þegar þú klúðrar vítaspyrnum en ég lít svo á að þetta fylgi starfinu. Þú átt eftir að skora úr vítum en einhverjar fara líka forgörðum,“ sagði Gylfi. 

„Maður verður bara að passa það að vinna í þeim og vera tilbúinn ef stjórinn vill að þú takir ábyrgðina á því að skila vítaspyrnu í markið,“ sagði Gylfi.


Tengdar fréttir

Gylfi sló met Eiðs Smára og Heiðars Helgu

Gylfi Þór Sigurðsson varð um helgina fyrsti íslenski leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem nær því að skora átta deildarmörk fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×