Innlent

Forsætisnefnd lýsir sig vanhæfa í Klaustursmálinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Forsætisnefnd Alþingis.
Forsætisnefnd Alþingis. Alþingi
Allir þeir þingmenn sem eiga sæti í forsætisnefnd hafa metið sig vanhæfa til þess að fjalla um Klaustursmálið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forseta Alþingis sem send var á fjölmiðla í dag. Vísir fjallaði fyrr í dag um að nokkrir nefndarmenn hefðu þegar sagt sig frá málinu.

Í tilkynningunni segir að nefndarmenn hafi allir ákveðið að segja sig frá umfjöllun um málið, meðal annars vegna ummæla sem þeir hafi viðhaft um málið í fjölmiðlum. Það hafi verið gert til þess að taka af allan vafa um hæfi þeirra sem um málið fjalla, sem og til þess að tryggja vandaða málsmeðferð og að málið komist með réttum hætti til siðanefndar Alþingis.

Þá segir einnig í tilkynningunni að forsætisnefnd muni, snemma í janúar, koma saman og funda um lagabreytingar sem í tilkynningunni eru sagðar „nauðsynlegar,“ til þess að tryggja að málið komist með réttum hætti til siðanefndar.

Forseti Alþingis segist leggja mikla áherslu á að þetta mál, sem og önnur siðareglumál sem Alþingi kunni að berast, fái vandaða málsmeðferð.

Í lok tilkynningarinnar segir að skrifstofa Alþingis muni „halda því erindi, sem forsætisnefnd hefur móttekið, í réttu horfi þar til viðeigandi breytingar hafa verið gerðar á þingsköpum Alþingis og meðferð mála samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.“


Tengdar fréttir

Forseti Alþingis segir engin bein viðurlög við brotum þingmanna á siðareglum

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir engin bein viðurlög liggja við því þegar þingmenn gerist brotlegir við siðareglur Alþingis. Hann segir þó að hægt sé að birta niðurstöðu málsmeðferðar siðanefndar opinberlega og að það aðhaldshlutverk sem nefndin sinnir felist í því.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.