Erlent

CIA telur krónprinsinn á bak við morðið á Khashoggi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Krónprinsinn í Sádi-Arabíu hefur sagst ekkert vita um morðið á  Khashoggi.
Krónprinsinn í Sádi-Arabíu hefur sagst ekkert vita um morðið á Khashoggi. vísir/epa
Bandaríska leyniþjónustan CIA telur ljóst að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi gefið út skipun um að ráða blaðamanninum Jamal Khashoggi bana í Istanbúl í október. Þetta hefur Washington Post eftir heimildarmönnum tengdum rannsakendum hjá CIA en niðurstaðan er þvert á fullyrðingar stjórnvalda í Sádi-Arabíu þess efnis að krónprisinn hafi hvergi komið nálægt morðinu.

Niðurstaða CIA er talin munu gera Donald Trump forseta erfitt fyrir en Sádar hafa verið nánir bandamenn Bandaríkjamanna. Post segir að fimmtán leyniþjónustumönnum frá Sádi-Arabíu hafi verið flogið í vél á vegum stjórnvalda til Istanbúl. Þeir hafi drepið Kashoggi á ræðisskrifstofu Sáda í tyrknesku borginni. Þangað hafði blaðamaðurinn mætt til að sækja skjöl sem hann þurfti á að halda til að geta gifst tyrkneskri unnustu sinni.

Margir hafa minnst Khashoggis undanfarnar vikur.EPA/ERDEM SAHIN
CIA skoðaði ógrynni gagna og ræddi við heimildarmenn. Meðal annars hefur CIA undir höndum símtal Khalid, bróður prinsins og sendiherra Sáda gagnvart Bandaríkjunum, við Khashoggi. Khalid á að hafa talið Khashoggi á að mæta á ræðisskrifstofuna í Istanbúl til að fá skjölin. Gaf hann honum loforð um að öryggis hans yrði ekki ógnað.

Ekki liggur fyrir hvort Khalid hafi verið meðvitaður um að til stæði að drepa Khashoggi. Símtalið var þó að beiðni krónprinsins. 

Fatimah Baeshen, talskona sendiráðs Sáda í Washington, segir sendiherrann og Khashoggi aldrei hafa rætt nokkuð er viðkom Tyrklandi. Hún segir ályktanir CIA rangar. Fjöldi getgáta sé á lofti en engar sannanir séu fyrir hendi að sögn Baeshen. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.