Erlent

Yfir þrjú þúsund manns leita að týndum dreng í Svíþjóð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan í Svíþjóð hefur birt þessa mynd af drengnum sem leitað er að.
Lögreglan í Svíþjóð hefur birt þessa mynd af drengnum sem leitað er að.

Yfir þrjú þúsund hafa tekið þátt í leit að tólf ára gömlum dreng sem saknað er í suðurhluta Svíþjóðar.

Drengurinn, sem er með Downs-heilkennið, fór út að labba með fjölskylduhundinn í heimabæ sínum Falkenberg á þriðjudag en þegar hann kom ekki heim með hundinn, sem fór bara einn heim, tilkynnti fjölskylda hans að hans væri saknað.

Lögreglan fer með málið en segir ekkert benda til þess að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað að því er segir á vef norska ríkisútvarpsins.

„Það er erfitt að dagarnir líði án þess að við finnum hann en við gefumst ekki upp,“ segir lögreglumaðurinn Jenny Widen.

Lögreglan hefur fyrirskipað að vatnsyfirborðið í ánni Ätran verði lækkað en Falkenberg stendur við ána.

Þá lét lögreglan í gær setja flugbann á allar tegundir flugfara, þar á meðal dróna, á svæðinu þar sem leitað er svo að lögregluyfirvöld geti notað sín tæki án þess að verða fyrir truflun af öðrum.

Aðeins lögreglumenn mega fljúga á svæðinu en fresta þurfti slíkri leit í gær vegna mikillar þoku. Við leitina hefur meðal annars verið notast við þyrlur auk þess sem kafað hefur verið í Ätran-ánni.

Falkenberg er ekki stór bær og margir þekkja strákinn sem er týndur. Voru bæjarbúar hvattir til þess á Facebook að láta til sín taka við leitina og stóð ekki á viðbrögðunum eins og talan sem nefnd var í upphafi fréttar sýnir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.