Bandaríska geimvísindastofnunin NASA tilkynnti í gær að eldsneyti Kepler væri loks á þrotum. Sjónaukinn verði tekinn úr notkun á næstu vikunni eða tveimur, að því er kemur fram í frétt Space.com.
Kepler var skotið á loft í mars árið 2009 en markmið hans var að leita að reikistjörnum á braut um fjarlægar stjörnur í Vetrarbrautinni. Upphaflega átti leiðangurinn aðeins að standa yfir í þrjú og hálft ár. Hann var hins vegar ítrekað framlengdur, jafnvel eftir að bilun kom upp í tveimur jafnvægishjólum sjónaukans sem notuð voru til að beina honum og halda stöðugum árin 2012 og 2013.
Verkfræðingar fundu hins vegar hugvitsamlega lausn þar sem þeir notuðu þrýsting sólarljóss til þess að halda sjónaukanum stöðugum og lengja líf hans. Á þessu seinna skeiði sínu uppgötvaði Kepler þúsundir reikistjarna til viðbótar.
Staðfesti trú vísindamanna á aðra heima
Eins og stendur hafa 70% af þeim 3.800 fjarreikistjörnum sem stjörnufræðingar hafa staðfesta vitneskju um fundist með athugunum Kepler, alls 2.681. Enn bíða 2.900 mögulegar fjarreikistjörnur sem Kepler fann staðfestingar.Kepler notaði svonefnda þvergönguaðferð til að koma auga á fjarreikistjörnurnar. Sjónaukanum var beint að stóru svæði á næturhimninum og leitaði að örlitlum breytingum á birtu stjarnanna sem gætu hafa verið merki um að reikistjarna hafi gengið á milli stjörnunnar og jarðarinnar.

Charlie Sobeck, aðalverkfræðingur Kepler-leiðangursins, segir við Washington Post að hann hafi alltaf haft trú á að fjölda reikistjarna væri að finna í Vetrarbrautinni. Kepler hafi fært vissu fyrir þeirri trú.
„Kepler sýndi mér að að það eru virkilega til reikistjörnur af öllum tegundum. Sú þekking er svo ólík trú,“ segir Sobeck.
Arftakinn á að finna þúsundir reikistjarna til viðbótar
Örlög Kepler verða kaldrannaleg, bókstaflega. Sjónaukinn er um 151 milljón kílómetra á eftir jörðinni á braut hennar um sólina og heldur sömu braut um fyrirsjáanlega framtíð. Til samanburðar er tunglið um 384.000 kílómetra frá jörðinni. Geimfarið mun svo reika um í nístingskulda geimsins um ókomna framtíð.„Þetta var litla geimfarið sem gat. Það gerði alltaf það sem við báðum það um og stundum meira til,“ segir Jessie Dotson, einn vísindamannanna sem störfuðu við leiðangurinn.
Miklar væntingar eru gerðar til arftaka Keplers, TESS-geimfarsins (Transiting Exoplanet Survey Satellite) sem NASA skaut á loft í vor. Vonir standa til að það gæti fundið allt að tíu þúsund fjarreikistjörnur í Vetrarbrautinni.