Erlent

Þúsundir ganga enn í norðurátt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Einn flóttamannanna úr hinni afar fjölmennu lest.
Einn flóttamannanna úr hinni afar fjölmennu lest. AP/Moses Castillo
Hin svokallaða flóttamannalest hélt áfram för sinni í gegnum Mexíkó og í átt að Bandaríkjunum í gær eftir að flóttamennirnir höfðu sofið undir berum himni. Talið er að rúmlega 7.000 flóttamenn frá Mið-Ameríku séu í hópnum.

Blaðamaður AP á svæðinu sagði að heyra hefði mátt hóstakór. Flóttamenn væru flestir í slæmu ástandi eftir að hafa sofið illa og lítið úti í kulda og lítið nærst. Margir virtust því hafa sýkst af einhverri kvefpest.

„Það er erfitt að ferðast með börnin. Í dag gengum við í sex tíma áður en við greiddum sendiferðabílstjóra fyrir að taka okkur upp í. Þetta er hættulegt. Það eru engir sjúkrabílar hérna og ef börnin falla í yfirlið gætu þau hreinlega dáið þar sem það er enginn til að annast þau,“ sagði hinn 27 ára fyrrverandi strætisvagna­stjóri Marlon Anibal Castellanos, frá San Pedro Sula í Hondúras, við AP. Hann er einn þessara þúsunda flóttamanna og ferðast með konu sinni, níu ára dóttur og sex ára syni.

Samkvæmt aðgerðasinna sem aðstoðar flóttamannalestina, var hlé gert í gær til þess að minnast eins úr hópnum sem lést á leiðinni.

Enn þarf hópurinn að ganga á annað þúsund kílómetra til þess að komast að landamærum Bandaríkjanna. Samkvæmt því sem sagði í umfjöllun CBS í gær er óvíst hversu stór hluti fer alla leið. Til að mynda komust einungis 200 af þeim 1.200 sem lögðu af stað í svipaða för fyrr á árinu að landamærum Kaliforníu.




Tengdar fréttir

Um fimm þúsund flóttamenn við landamæri Mexíkó

Þúsundir hondúrskra flóttamanna eru nú við landamæri Mexíkó og Gvatemala þar sem þeir freista þess að komast inn í Mexíkó og halda áfram för sinni frá Mið-Ameríku til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×