Innlent

Karlmaður úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna rannsóknar á peningaþvætti

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Karlmaður á sextugsaldri var á föstudag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur. Var það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar á meintu peningaþvætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Lagt var hald á verulega fjármuni en fasteign mannsins hefur verið kyrrsett og hald lagt á bankareikninga og ökutæki hans. Eins lagði lögregla hald á töluvert magn af lyfseðilsskyldum lyfjum en lögreglan grunar að lyfin hafi verið ætluð til endursölu á svörtum markaði. Verðmæti eigna og fjármuna sem voru kyrrsettar vegna málsins hleypur á tugum milljóna. Maðurinn sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu og var hann handtekinn síðastliðinn fimmtudag. Þá var húsleit framkvæmd á heimili mannsins að undangengnum dómsúrskurði. Lögreglan segir að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×