Erlent

Flokkur Merkel og Jafnaðarmenn tapa í Hessen

Atli Ísleifsson skrifar
Andrea Nahle er formaður þýskra Jafnaðarmanna (SDP).
Andrea Nahle er formaður þýskra Jafnaðarmanna (SDP). Getty/Sean Gallup
Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, og Jafnaðarmannaflokkurinn (SDP) töpuðu báðir miklu fylgi í kosningum til sambandsþings í Hessen í dag. Útgönguspár benda til að flokkarnir fái báðir um 10 prósent minna fylgi en í síðustu kosningum til sambandsþingsins, CDU um 28 prósent og SDP um 20 prósent.

Græningjar virðast hafa unnið mikinn sigur samkvæmt spánni, er orðinn þriðji stærsti flokkurinn og hefur fengið í kringum 19,5 prósent fylgi. Hægriöfgaflokkurinn AfD fá 12 prósent atkvæða og ná í fyrsta sinn mönnum inn á sambandsþingið.

BBC segir frá því að spenna milli CDU og SPD kunni að aukast í kjölfar kosninganna, en flokkarnir mynda saman ríkisstjórn ásamt CSU, systurflokki CDU. Stjórnarsamstarfið hefur gengið brösuglega, allt frá því að stjórnin var mynduð, um hálfu ári eftir kosningarnar í september í fyrra.

Andrea Nahle, formaður SDP, segir flokkinn nú vinna að nýjum „vegvísi“ fyrir flokkinn, en úrslit flokksins í Hessen eru þau verstu í sambandsríkinu á eftirstríðsárunum.

Töpuðu líka í Bæjaralandi

Kristilegir demókratar misstu mikið fylgi í kosningum til sambandsþingsins í Bæjaralandi fyrr í mánuðinum, þar sem CSU hlaut einungis 38 prósent fylgi. Flokkurinn hefur verið með hreinan meirihluta á sambandsþinginu nær óslitið frá stríðslokum og flokkurinn hefur ekki hlotið minna en 40 prósenta stuðning síðan árið 1954. Líkt og í Hessen nú, unnu Græningjar og AfD sigra í kosningunum í Bæjaralandi.

Alls búa um sex milljónir manna í Hessen og er stærsta borgin Frankfurt am Main.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×