Erlent

Sýndi fram á frumbyggjablóð eftir ítrekaðar Pocahontas-háðsglósur Trumps

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Elizabeth Warren situr í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Demókrataflokkinn.
Elizabeth Warren situr í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Demókrataflokkinn. Getty/Andrew Harrer
Bandaríska þingkonan Elizabeth Warren greindi í gær frá niðurstöðum erfðaprófs, sem sýna að hún á ættir að rekja til frumbyggja Norður-Ameríku. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað gert gys að Warren fyrir að halda áðurnefndum ættartengslum sínum fram.

Warren birti niðurstöðurnar í myndbandi sem hún deildi á Twitter-reikningi sínum í gær. Í myndbandinu ræðir Warren við fjölskyldu sína um uppruna móður sinnar, sem ólst upp í Oklahoma-ríki og er talin af ættum frumbyggja.

Warren hefur lengi haldið því fram að ættir hennar megi rekja til Cherokee-indíána. Ýmis samtök frumbyggja í Bandaríkjunum hafa þó gagnrýnt hana fyrir að gera svo mikið veður úr DNA-prófi og segja slíkt próf ekki hafa neina raunverulega þýðingu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert grín að þessum fullyrðingum Warren við fjölmörg tilefni. Hann hefur til að mynda ítrekað kallað hana nafni indíánaprinessunnar Pókahontas í hæðnistón, þar á meðal í ræðu sem hann hélt í Hvíta húsinu til heiðurs frumbyggjum sem börðust í seinni heimsstyrjöldinni.

Trump var inntur eftir viðbrögðum við niðurstöðum erfðaprófs Warren í gær. „Hverjum er ekki sama?“ var svar forsetans.

Í gær var Trump auk þess minntur á að hann hefði eitt sinn lofað Warren einni milljón Bandaríkjadala ef hún léti framkvæma DNA-próf, og niðurstöðurnar sýndu fram á að hún væri af frumbyggjaættum. Trump þvertók hins vegar fyrir að hafa nokkurn tímann látið umræddar fullyrðingar út úr sér.

Elizabeth Warren er ein vinsælasta þingkona Demókrataflokksins. Hún hefur nokkrum sinnum verið orðuð við forsetaframboð og telja margir að þetta útspil hennar sé fyrsta skref í átt að framboði hennar til Bandaríkjaforseta árið 2020.


Tengdar fréttir

Pocahontas-uppnefni Trump sagt kynþáttalast

Leiðtogar frumbyggja í Bandaríkjunum eru ekki sáttir við „brandara“ Donalds Trump um þingmann demókrata við athöfn til heiðurs stríðshetja í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.