Erlent

Trump segir þingkonu vera svikahrapp vegna DNA-prófs

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir þingkonuna Elizabeth Warren vera „algjöran svikahrapp“ vegna DNA-prófs sem hún fór í til að staðfesta tengsl sín við Cherokee ættbálkinn í Bandaríkjunum. Forsetinn krafðist þess að hún bæðist afsökunar. Trump hefur ítrekað hæðst að Warren, sem þykir líkleg til þess að bjóða sig fram til forseta 2020, á undanförnum árum og kallað hana Pocahontas vegna þess að hún skrifaði í skrár í háskóla sem hún vann í að Cherokee-fólk væri meðal forfeðra hennar.

Vitnaði hún í sögur innan fjölskyldu sinnar því til stuðnings. Prófið leiddi í ljós að það væru „sterkar vísbendingar“ um að hún tengdist frumbyggjum Bandaríkjanna sex til tíu ættliði aftur. Politifact fékk fjóra sérfræðinga til að fara yfir prófið og þeir sögðu allir að það væri trúverðugt.

Tengsl Warren við frumbyggja Bandaríkjanna að hafa myndast fyrir 150 til 250 árum. Warren hefur sagt að samkvæmt fjölskyldu hennar hafi langa-langa-langa amma hennar verið af Cherokee ættum.

Vill milljón frá Trump
Eftir að hún fór í prófið beindi hún tísti til Trump. Þar sagði hún Trump hafa sagt í sumar að hann myndi gefa milljón dala til góðgerðafélags, sem hún ætti að velja, ef hún færi í DNA-próf og niðurstaðan væri sú að tengdist frumbyggjum Bandaríkjanna með nokkrum hætti.

Warren sagði forsetanum að senda ávísun til góðgerðasamtakanna National Indigenous Women‘s Resource Center. Það eru samtök sem verja konur gegn ofbeldi.

Trump varpaði sjálfur frá sér nokkrum tístum í dag þar sem hann tók áðurnefnt próf fyrir. Í því fyrsta sagði hann að „Pocahontas (verri útgáfan) sem stundum er kölluð Elizabeth Warren“ hefði verið harðlega gagnrýnd vegna prófsins. Sem er rétt.

Samtök Cherokee ættbálksins hafa gagnrýnt Warren fyrir að grafa undan trúverðugleika þeirra sem reynast hafa sterk tengsl við frumbyggjasamfélag bandaríkjanna og fara gegn hagsmunum þeirra. Þeir segja DNA-próf ekki duga til að staðfesta að tiltekinn aðili sé í raun meðlimur í ættbálkinum. Það sé ákveðið af ættbálkinum sjálfum.

Þá vísar hann til orða formanns samtaka Cherokee ættbálksins og segir að „meira að segja þeir vilja hana ekki. Loddari!“.

Trump og stuðningsmenn hans hafa, eins og áður segir, lengi hæðst að Warren vegna tals hennar um langa-langa-langa ömmu sína. Snopes hefur rakið rætur þessara árása til kappræðna hennar og þingmannsins Scott Brown árið 2012. Hann hélt því fram að hún hefði verið ráðin til háskólanna Penn og Harvard, eingöngu vegna þess að hún hefði sagt í umsóknum sínum að hún tilheyrði minnihlutahópi.

Þegar Warren starfaði hjá Penn skráði hún sig á lista kennara sem tilheyrðu minnihlutahópi og sagðist hún tilheyra frumbyggjum Bandaríkjanna. Hún hefur þó bent á að hún var ráðin til bæði Penn og Harvard, án þess að sækja um, og segist aldrei hafa reynt að nota þessar fjölskyldusögur til að fá atvinnu.

Þá hefur formaður ráðninganefndar Harvard sagt opinberlega að þetta mál hefði ekki komið til umræðu vegna Warren.

Ekkert til í ásökunum
Þar að auki birtu blaðamenn Boston Globe umfangsmikla rannsókn (Paywall) í síðasta mánuði, þar sem þeir fóru gaumgæfilega yfir feril Warren og könnuðu ásakanir Brown. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að ekkert væri til í þeim.

Þegar Trump var spurður að því hvort hann ætlaði að veita National Indigenous Women‘s Resource Center milljón dala sagðist hann aldrei hafa sagt það.

„Ég sagði það ekki. Þér er best að lesa þetta aftur,“ sagði Trump.

Sagði það víst
Trump sagði svo sannarlega orðin; „Ég mun gefa uppáhalds góðgerðasamtökum þínum milljón dali, borgaðir af Trump, ef þú tekur próf og sannar að þú sért indíáni,“ á kosningafundi í sumar þegar hann var að ræða mögulega mótframbjóðendur sína í forsetakosningunum 2020. Samhengið skiptir þó máli.

„Ég ætti ekki að segja ykkur þetta því mér er illa við að gefa upp leyndarmál. En segjum að ég sé í kappræðum gegn Pocahontas. Ég lofa ykkur að ég geri þetta. Ég mun taka, þið vitið þessi litlu próf sem þeir selja í sjónvarpinu fyrir tvo dali?, „Lærið uppruna ykkar!““

„Og í miðjum kappræðunum, þegar hún lýsir því yfir að hún sé af indíánaættum af því að móðir hennar sagði hana vera með há kinnbein. Það er eina sönnunin sem hún hefur, móðir hennar sagði „við erum með há kinnbein“.“

„Þá munum við taka þetta próf, en við verðum að gera það af varkárni. Því við erum á #MeToo tímabilinu, og kasta því hægt til hennar, vonast til þess að það slasi hana ekki, og við munum segja: „Ég mun gefa uppáhalds góðgerðasamtökum þínum milljón dali, borgaðir af Trump, ef þú tekur próf og sannar að þú sért indíáni.“

„Sjáum hvað hún gerir. Mig grunar að hún muni segja nei. Við geymum þetta til kappræðunnar. Gerið mér greiða og haldið þessu innan herbergisins, því ég vil ekki gefa upp leyndarmál,“ sagði Trump á kosningafundi fyrir framan þúsundir áhorfenda og fjölda sjónvarpsvéla.

Samt ekki
Þarna var forsetinn að tala um ímyndaðar kappræður á milli sín og Warren þar sem hann segist ætla að grýta DNA-prófi í hana, varlega, svo hann slasi hana ekki því hún er kona. Það er því vel hægt að líta á það sem svo að Trump hafi ekki verið alvara þegar hann sagðist mögulega ætla að heita milljón dala til góðgerðasamtaka ef hann væri í kappræðum gegn Warren árið 2020.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.